151. löggjafarþing — 21. fundur,  17. nóv. 2020.

vaxtahækkun bankanna.

[13:42]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina og vil rifja það upp sem fram kom í máli hv. þingmanns að stýrivextir Seðlabankans hafa aldrei verið lægri á sögulegum tíma. Enn fremur að ríkisstjórnin hefur með aðgerðum sínum tryggt að bankarnir hafa fullt svigrúm til að styðja til að mynda við fyrirtækin í landinu. Það hefur m.a. verið gert með þeim ákvörðunum sem hv. þingmaður vísaði til gagnvart álögum á bankana, og hins vegar með þeim ákvörðunum sem teknar voru af Seðlabankanum hvað það varðar að létta kröfum á sveiflujöfnunarauka. Þannig að ég tel að bönkunum hafi verið veitt fullt svigrúm til að styðja bæði við fólk og fyrirtæki í landinu. Hv. þingmaður þekkir það hins vegar vel að bankarnir eru ekki undir beinni yfirstjórn ríkisstjórnar, heldur eru þeir skipaðir sjálfstæðum stjórnum en það var ákvörðun Alþingis á sínum tíma að mikilvægt væri að ekki væru pólitísk afskipti af bönkunum.

Ég vil hins vegar segja það að þegar horft er á allt það sem stjórnvöld hafa gert, og af því að hv. þingmaður vísaði hér til lífskjarasamninga, er ekki hægt að klaga upp á neitt sem ríkisstjórnin hefur gert, sama hvort horft er til skattkerfisbreytinga, sérstakra aðgerða til að draga úr kostnaði í heilbrigðiskerfinu, húsnæðisaðgerða, barnabóta eða sérstakra aðgerða í þágu öryrkja og eldri borgara. Þessi ríkisstjórn hefur svo sannarlega komið til móts við tekjulægri hópa með öllum þeim tólum og tækjum sem okkur eru búin, hvort sem það er með skattkerfisbreytingum, bótakerfinu eða öðru. Ég held að það sé mjög mikilvægt því að við erum vissulega stödd í djúpri kreppu og það skiptir miklu máli að þær aðgerðir sem stjórnvöld ráðast í til að bregðast við henni verði ekki til að auka ójöfnuð í samfélaginu, heldur einmitt að hlúa að þessum hópum.