151. löggjafarþing — 21. fundur,  17. nóv. 2020.

vinnumarkaðsmál.

[13:53]
Horfa

félags- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F):

Virðulegi forseti. Það er alveg rétt að atvinnuleysistryggingar eru áunnin réttindi. Það er hins vegar salurinn hér sem ákveður með hvaða hætti þau birtast og hversu mikið við stígum inn í og hvernig. Ríkisstjórnin ákvað t.d. að koma með hlutabótaleiðina til að verja störf, sem samþykkt var á þingi og settir voru í tugir milljarða. Þær upphæðir sem við erum að setja inn í atvinnuleysistryggingakerfið með samþykkt Alþingis, bæði með samþykkt á einstaka lögum og eins fjárlögum og fjáraukalögum, eru margfalt hærri en nokkurn tímann hefur þekkst í Íslandssögunni. Við ákváðum að koma með úrræði fyrir atvinnulausa vegna þeirrar atvinnukreppu sem nú er, Nám er tækifæri, sem er þrisvar sinnum stærra en sambærilegt úrræði var í efnahagshruninu og svona mætti áfram telja. Við munum áfram koma með úrræði og í vinnslu eru frekari aðgerðir fyrir einstaklinga sem eru atvinnulausir í gegnum atvinnuleysistryggingakerfið og frétta af því er að vænta á allra næstu dögum.