151. löggjafarþing — 21. fundur,  17. nóv. 2020.

jafnréttismál.

[13:56]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina. Nú man ég ekki nákvæmlega orð mín hér í ræðustól en ég tek bara orð hv. þingmanns góð og gild um það. Ég man það hins vegar vel að hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra gerði ríkisstjórn grein fyrir því munnlega að hún hygðist höfða mál til ógildingar á þessum úrskurði kærunefndar jafnréttismála. Það er algerlega ákvörðun hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra að gera það og hún hefur til þess rétt samkvæmt gildandi lögum.

Eins og hv. þingmaður þekkir og veit hef ég raunar lagt til þá breytingu á lögum um jafna stöðu karla og kvenna, sem eru hér til meðferðar í þinginu, að sé vilji til að höfða mál til ógildingar í slíkum málum til framtíðar verði viðkomandi stjórnsýslunefnd kölluð til, eins og tíðkaðist fram til ársins 1997 en var breytt þá með lögum. Ég hef lagt til þessa breytingu af því að ég tel mikilvægt að kerfið sé þannig úr garði gert að það tryggi að fólk leiti réttar síns telji það á sér brotið.

Hv. þingmaður spyr: Upplýsti menntamálaráðherra um ákvörðun sína? Hún gerði það. Hef ég farið nákvæmlega í málavexti þessa máls? Nei, það hef ég ekki gert enda er þetta mál alfarið á borði hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra sem er hér til svara í dag og getur vafalaust farið nánar yfir það. Hvað varðar lagarammann þá er hann alveg skýr og hv. þingmaður þekkir þær breytingar sem ég hef lagt til á honum.