151. löggjafarþing — 21. fundur,  17. nóv. 2020.

jafnréttismál.

[13:59]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni aftur fyrir og ítreka það sem ég sagði áðan, ég hef ekki kafað ofan í málavexti þess máls sem hv. þingmaður spyr um og tel betur fara á því að viðkomandi ráðherra fari yfir þá málavexti þegar hún situr fyrir svörum.

Mér er ljúft og skylt að fara yfir það sem hv. þingmaður spyr hér um sérstaklega í sinni síðari fyrirspurn. Ráðuneytisstjóri forsætisráðuneytisins var færður til í starfi samkvæmt skýrri heimild 36. gr. laga nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, þar sem er heimild til að færa embættismenn til í starfi. Sú heimild byggist raunar á vísun í stjórnarskrá lýðveldisins þannig að sú skipun er algerlega hafin yfir vafa. Sá aðili sem var færður til í starfi gegndi áður embætti ríkissáttasemjara og var raunar skipaður í það embætti, að mig minnir, eftir auglýsingu af ráðherra Framsóknarflokksins, Eygló Harðardóttur, þannig að það þarf enginn að velkjast í vafa um að þessi skipun er algerlega hafin yfir vafa.