151. löggjafarþing — 21. fundur,  17. nóv. 2020.

greiðsluþátttaka sjúkratrygginga.

[14:03]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég held að enginn þurfi að velkjast í vafa um að breytingarnar sem þegar hafa verið gerðar á umræddri reglugerð endurspegla vilja minn í þessu máli. Hins vegar hefur mér borist erindi frá foreldrum barna sem rætt hefur verið um í fjölmiðlum þar sem óskað er eftir því að ég leggi fram tilmæli til Sjúkratrygginga Íslands um að reglugerð um þátttöku sjúkratrygginga sé fylgt. Það erindi er í vinnslu innan ráðuneytisins og mun verða svarað þegar vinnslu þess er lokið. Það er mikilvægt að halda því til haga að SÍ hefur tekið ákvörðun í umræddum málum og málin hafa ekki verið kærð til úrskurðarnefndar velferðarmála. Þannig að kæruleið innan stjórnsýslunnar hefur ekki verið tæmd og það er ekki rétt að ráðherrar tjái sig um málið áður en úrskurður kærunefndar liggur fyrir. Það er einfaldlega staðan. Sjúkratryggingar hafa rökstutt synjun sína með þeim hætti að ekki hafi þótt tímabært að meta tannvanda umsækjenda, en að ekki sé loku fyrir það skotið að síðar kunni umsóknir umræddra aðila verða samþykktar þegar þá verði tímabært að meta vandann. Þetta er orðrétt haft eftir Sjúkratryggingum Íslands. En ég vil fullvissa hv. þingmann um hug minn í þessu máli og undirstrika jafnframt stöðu mína í málinu, þ.e. í ljósi þess að málinu kann að verða vísað aftur til úrskurðarnefndar. Auk þess er erindið á mínu borði að því er varðar möguleg tilmæli til Sjúkratrygginga og því get ég ekki tjáð mig efnislega um málin frekar en hér er gert.