151. löggjafarþing — 21. fundur,  17. nóv. 2020.

ummæli ráðherra um dómsmál.

[14:07]
Horfa

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (V):

Herra forseti. Á sunnudaginn sat hæstv. menntamálaráðherra í útvarpsviðtali og ræddi þar um niðurstöðu kærunefndar jafnréttismála þess efnis að hún hefði gerst brotleg við jafnréttislög. Í viðtali sagði ráðherra, með leyfi forseta:

„Ég er ráðherra, ég er líka einstaklingur og verð, alveg eins og allir aðrir í íslensku samfélagi, að geta sótt minn rétt, telji ég brotið á mér.“

Þessi ummæli ráðherra eru merkileg og merkileg fyrir margra hluta sakir. Réttinn til að fara í mál hefur hún vitaskuld, það er óumdeilt, en ráðherra þarf að vera meðvitaður um að það er ráðherra sem stefnir þarna konu fyrir dóm. Þetta er dómsmál ráðherrans og þetta er dómsmál ráðherrans í nafni ríkisstjórnarinnar. Í þessu felst ekki einhver afstaða einstaklings úti í bæ og þetta er algjört grundvallaratriði í umræðunni því að þetta snýst um það hvernig þessi hæstv. ráðherra starfar og hvernig hún beitir valdi sínu.

Og það var líka menntamálaráðherra sem sat í útvarpsviðtali og ræddi þar um nafngreinda og ónafngreinda embættismenn, starfsmenn innan stjórnsýslunnar sem eiga enga aðild að þessu dómsmáli og hafa ekki komið þar nærri, um embættismenn sem ráðherrann veit ósköp vel að geta ekki tekið þátt í opinberu samtali við ráðherra og geta ekki gert neitt annað en að sitja undir þessum sendingum ráðherra, eins óverðskuldaðar og þær eru. Þannig fór ráðherra með vald sitt þennan dag. Ég velti fyrir mér aðstöðumuninum í þessu sambandi, aðstöðumun sem hæstv. ráðherra virðist ekki skynja.

Mér finnst ég skynja einhverja sögu um meðferð valds sem er óþægileg. Ég spyr: Er það raunverulega skoðun ráðherra að þetta dómsmál snúist um persónu Lilju Alfreðsdóttur? Og er það raunverulega skoðun hennar að hún geti setið í útvarpsviðtali og talað um embættismenn með þeim hætti sem hún gerði þennan sunnudag?