151. löggjafarþing — 21. fundur,  17. nóv. 2020.

ummæli ráðherra um dómsmál.

[14:09]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Lilja Alfreðsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að óska okkur öllum til hamingju með daginn þar sem tvær nýjar konur hafa bæst í hóp þeirra sem sitja í Hæstarétti landsins. Er varðar fyrirspurn hv. þingmanns um ákveðið dómsmál þá vil ég benda þingmanni á, eins og hún veit mætavel, að það er eina leiðin að fara í ógildingu á þessu máli. Það er eina leiðin sem ráðherrann hefur ef ráðherrann er ekki sammála þessu. Ég breytti rétt sem ráðherra og stend við það. Ég hlakka til að fara yfir þetta mál með ykkur öllum þegar því er lokið.

Ég vil líka nefna að þetta snýst um jafnrétti. Þetta snýst um að það var hæfnisnefnd sem var skipuð þremur einstaklingum, tveimur konum og einum karli. Í öllum málflutningi hér er alltaf talað karlmanninn og aldrei að það hafi líka verið tvær konur í hæfnisnefndinni, fyrrverandi rektor, fyrsta konan sem gegndi því hlutverki að vera rektor í sögu Háskóla Íslands. Í öllum málflutningi er alltaf talað um að það hafi verið karlmaðurinn (Gripið fram í: Það er verið að tala um ráðherravald.) sem hafi stýrt öllu. Það er rosalega brýnt þegar við erum að tala um mikilvæg málefni samfélagsins að við séum hreinskilinn og gefum upp allt sem við gerum í þeim efnum.