151. löggjafarþing — 21. fundur,  17. nóv. 2020.

ummæli ráðherra um dómsmál.

[14:13]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Lilja Alfreðsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég hef svarað því og ég tel að allt sem var gert í þessu máli standist skoðun og þess vegna, sem ráðherra, fer ég fram á ógildingu. Ég er ekki sammála þessum úrskurði. Ef það er orðið svo að stjórnmálamenn séu orðnir hræddir við það að standa með sannfæringu sinni, af hverju eru þeir þá í stjórnmálum? Er það að beita hörku að fara fram á ógildingu í máli sem maður er ekki sammála? Ég spyr bara: Viljum við hafa stjórnmálamenn eða stjórnmálakonur sem hafa ekki kjark eða þor til að standa með því sem þau gera? Mitt svar er einfalt: Nei.