151. löggjafarþing — 21. fundur,  17. nóv. 2020.

aukin atvinnuréttindi útlendinga.

[14:14]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (U):

Herra forseti. Allt of oft og allt of reglulega berast okkur dæmi um hælisleitendur sem ekki hafa hlotið náð fyrir augum útlendingayfirvalda hér á landi. Það er orðið jafn reglulegt að viðbrögðin við þeirri umræðu séu þau að benda á annað kerfi sem heyrir undir hæstv. félags- og barnamálaráðherra, sem er kerfi sem tekur á móti fólki sem flytur hingað vegna atvinnu. Nærtækt er að nefna að hæstv. fjármálaráðherra benti á þetta í umræðum í þingsal í síðustu viku og sagðist tilbúinn til að skoða að opna það kerfi frá því sem nú er. Og dómsmálaráðherra, sem hefur líka oft nefnt þetta og nefndi það í viðtali núna um helgina, sagðist vilja gera eitthvað en málið væri hjá félagsmálaráðherra, þangað hefði hún beint erindi og til stæði að skoða þau mál.

Hér megum við ekki festa okkur í því að horfa bara á hálaunafólk í fjarvinnu, eins og opnað var fyrir nú í haust, eða þessa fyrir fram skilgreindu sérfræðinga sem fyrirtæki geta sótt sér til landsins, heldur bara venjulegt fólk sem vill setjast hér að í krafti þess að geta starfað hérna.

Þess vegna eru það nokkuð blönduð skilaboð sem berast frá ríkisstjórninni þegar ráðherra Sjálfstæðisflokksins talar með einum hætti en þingflokkur forsætisráðherra leggur fram tillögu um aukin atvinnuréttindi útlendinga, sem bendir í rauninni til þess að ekki sé búist við miklu af félagsmálaráðherra. Því langar mig að spyrja ráðherrann: Hver er stefna ríkisstjórnarinnar varðandi fólk utan Evrópu sem vill flytja hingað? Hvaða vinna er í gangi til að rýmka réttindi þess hóps til að setjast hér að? Hvenær er þess að vænta að hæstv. ráðherra komi með einhverjar slíkar breytingar til þingsins, vegna þess að ég hef meiri trú á honum en þingflokkur forsætisráðherra?