151. löggjafarþing — 21. fundur,  17. nóv. 2020.

staðfesting ríkisreiknings 2019 .

277. mál
[16:07]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi til laga um staðfestingu ríkisreiknings 2019 í samræmi við ákvæði laga um opinber fjármál. Ríkisreikningur fyrir árið 2019 er þriðji reikningurinn sem gerður er á grundvelli alþjóðlegs reikningsskilastaðals fyrir opinbera aðila, svonefnds IPSAS-staðals. Innleiðing á breyttum reikningsskilum er afar umfangsmikið verkefni sem nú sér brátt fyrir endann á, en fresta þarf innleiðingu nokkurra staðla fram á næsta ár.

Áritun ríkisendurskoðanda er án fyrirvara og er niðurstaða endurskoðunarinnar að rekstur ríkissjóðs hafi gengið vel í öllum aðalatriðum á árinu 2019 og að í árslok hafi fjárhagur ríkisins verið traustur. Rekstrarafkoma ársins 2019 var, samkvæmt ríkisreikningi, jákvæð um 42 milljarða kr. Tekjur námu samtals 830 milljörðum. Þar af voru virðisaukaskattur, vörugjöld og aðrir óbeinir skattar og tollar 331 milljarður kr., en skattar á tekjur og hagnað einstaklinga og lögaðila 340 milljarðar kr. Gjöld ríkissjóðs fyrir fjármagnsliði námu 809 milljörðum kr., en þar af voru rekstrartilfærslur 350 milljarðar og laun og launatengd gjöld 230 milljarðar. Annar rekstrarkostnaður nam 194 milljörðum en aðrir gjaldaliðir, svo sem fjármagnstilfærslur, námu 16 milljörðum og afskriftir og niðurfærslur 20 milljörðum. Fjármagnsgjöld umfram fjármunatekjur námu 57 milljörðum, vaxtagjöld um 63 milljörðum og vaxtatekjur 6 milljörðum. Hlutdeild í afkomu félaga og samrekstrar var jákvæð um 78 milljarða.

Virðulegi forseti. Efnahagsreikningur ríkissjóðs hefur tekið umtalsverðum breytingum síðustu ár, m.a. vegna eignfærslu varanlegra rekstrarfjármuna, og gefur efnahagsreikningurinn góða heildarmynd af eignum, skuldum og eiginfjárstöðu ríkissjóðs. Samkvæmt efnahagsreikningi 31. desember 2019 námu eignir alls 2.355 milljörðum, skuldir 1.947 milljörðum og var eigið fé því jákvætt um 408 milljarða. Handbært fé var 270 milljarðar í árslok og hækkaði um 53 milljarða á árinu.

Rekstrarafkoma ríkisreiknings er birt samkvæmt reikningsskilastaðli fyrir opinbera aðila, IPSAS, eins og ég hef áður nefnt, en heildarafkoma í fjármálaáætlun og fjárlögum er birt samkvæmt hagskýrslustaðli, svonefndum GFS-staðli. Báðum aðferðum er ætlað að tryggja samkvæmni og alþjóðlega samanburðarhæfni. Afkoma ríkissjóðs samkvæmt ríkisreikningi er því ekki sambærileg við afkomumarkmið fjármálaáætlunar og fjárlaga. Í ríkisreikningi er birt séryfirlit, þar sem niðurstaðan er flokkuð í samræmi við GFS-flokkun fjárlaga og reyndist neikvæð um 39 milljarða samkvæmt mati Fjársýslunnar. Afkoman samkvæmt GFS-staðlinum er því 67 milljörðum lakari en fjárlög ársins 2019 gerðu ráð fyrir. Frávik frá uppfærðum áætlunum eins og þær voru birtar með frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 2020 og voru kynntar hér á þinginu á haustmánuðum 2019 nam á hinn bóginn um 24 milljörðum. Helstu skýringar á þessu fráviki liggja í því að efnahagsleg þróun varð mun neikvæðari á árinu 2019 en búist var við í forsendum fjárlaga og var fjármálastefna ríkisstjórnarinnar m.a. endurskoðuð um mitt ár sökum þessa.

Virðulegi forseti. Þrátt fyrir nokkra ágjöf á íslenskt efnahagslíf árið 2019 sýnir ríkisreikningur sterka stöðu í árslok 2019 fyrir ríkissjóð. Afkoma undanfarinna ára hefur verið góð og staða eigin fjár er því sterk. Þessi góða staða ríkissjóðs hefur gert okkur kleift að bregðast við núverandi efnahagsáfalli af völdum kórónuveirufaraldursins af miklum krafti með því að grípa til umfangsmikilla mótvægisráðstafana og tryggja með því öfluga viðspyrnu að faraldrinum loknum.

Virðulegi forseti. Ég legg til að frumvarpinu verði vísað til fjárlaganefndar og til 2. umr. að aflokinni þessari umræðu.