151. löggjafarþing — 21. fundur,  17. nóv. 2020.

staðfesting ríkisreiknings 2019 .

277. mál
[16:17]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra og eins og hann nefndi þá er munurinn mjög mikill. Ég held að þetta sé afar nauðsynlegt til þess að skýra þessa umræðu hér í þinginu, svo að menn átti sig betur á því hver munurinn er og hvers vegna hann er svona mikill, eins og hæstv. ráðherra nefndi réttilega. Mig langar að víkja aðeins að öðru og fá þá kannski álit hæstv. ráðherra á því, hvort hann taki undir með mér að það sé mikilvægt að uppgjör samkvæmt þjóðhagsreikningum og greiningum á frávikum þess við IPSAS-uppgjörið verði endurskoðað af hlutlausum aðila, þ.e. af endurskoðendum sem hafa hlotið þjálfun og menntun til slíkra verka, í stað þess að umræðan eigi sér stað án endurskoðaðs þjóðhagsreikningsuppgjörs. Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra hvern hann telur þá til þess fallinn að endurskoða þetta uppgjör þar sem Ríkisendurskoðun annast það ekki, rétt svo að það komi fram. Í ríkisreikningi er ekki gerð mikil greining á rekstrarárangri og hann borinn saman við markmið sem sett eru í rekstri ríkisins.

Þó að slíkar greiningar komi fram í skýrslum ráðherra verður að telja að greining sem þessi yrði til mikilla bóta fyrir einmitt lesendur reikningsskilanna, þó að skýringar ríkisreiknings séu í samræmi við IPSAS. Það má því spyrja hæstv. ráðherra hvort það gæti ekki verið til bóta, eða aukið gæði þessarar umræðu, að birta slíka mælingu með skýringum ríkisreiknings.