151. löggjafarþing — 21. fundur,  17. nóv. 2020.

staðfesting ríkisreiknings 2019 .

277. mál
[16:19]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Forseti. Fyrst örstutt áfram um þennan mun. Eins og segir í frumvarpinu er IPSAS fyrst og fremst að leggja áherslu á rekstrarafkomu og stöðu efnahags. Þessi staðall gerir kleift að meta fjárhagslega afkomu, skerpa ábyrgð stjórnenda og auka gagnsæi fyrir ákvarðanatöku í rekstri á meðan GFS, sem er þessi grunnur sem við notum fyrir fjárlög og fjármálaáætlun, er meira að horfa á efnahagsleg áhrif opinberrar fjármálastefnu, greina áhrif á hagkerfið, valkosti við ákvarðanatöku í opinberum fjármálum o.s.frv., og segir okkur þannig hvort við séum að draga úr spennu eða auka umsvif með áhrifum ríkisfjármálanna. Þetta skiptir verulega miklu máli. Niðurstaðan í fjárlagafrumvarpi er þá í sjálfu sér kannski meira að segja okkur hvort við séum að reka aðhaldssama ríkisfjármálastefnu eða ekki á meðan IPSAS er meira að segja hvernig gengur í rekstrinum heilt yfir.

Ég hef mikinn áhuga á því sem hv. þingmaður kemur inn á, sem eru markmið og árangur og uppgjör við markmiðasetningu. Ég verð að segja alveg eins og er að það er mín skoðun að við séum ekki góð í að gera slíkt uppgjör. Minn forgangur í því væri að þingið væri sterkara til að gera það. Eflaust þarf einhvers konar utanaðkomandi sjálfstæðan aðila þannig að þetta fari ekki beint í pólitískar skotgrafir, að það fari bara eftir pólitískum áherslum hvernig menn líta á uppgjörið, heldur sé farið dálítið hlutlægt yfir það. Ég veit ekki hvort það fellur mjög vel að hlutverki ríkisendurskoðanda sem endurskoðanda uppgjörsins en svo sannarlega (Forseti hringir.) mættum við gera miklu meira af því að fara t.d. yfir markmið (Forseti hringir.) um ráðstöfun opinbers fjár og gera upp árangurinn sem það átti að skila. Þannig gætum við örugglega komist miklu lengra áfram á vegi aukinnar framleiðni í opinberum rekstri en við gerum í dag.