151. löggjafarþing — 21. fundur,  17. nóv. 2020.

staðfesting ríkisreiknings 2019 .

277. mál
[16:21]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M):

Herra forseti. Það má greinilega sjá á ríkisreikningi fyrir árið 2019 að tekið var að hægja á í hagkerfinu og staða ríkissjóðs var farin að versna. Síðan dundu yfir áföll, loðnubrestur og gjaldþrot flugfélagsins WOW, og væntingar um að önnur flugfélög myndu síðan fylla fljótt í skarðið gengu ekki eftir svo neinu nam. Þannig var óvissa um bein og afleidd áhrif þessara áfalla.

Fjárlög ríkisstjórnarinnar fyrir árið 2019 einkenndust af mikilli útgjaldaaukningu og skorti á ráðdeild, vil ég meina, þar sem ekki var nægilega hugað að ráðdeild í rekstri. Ekki var að sjá að ríkisstjórnin hefði góða yfirsýn yfir ríkisreksturinn og báknið hélt áfram að þenjast út. Hagkerfið var farið að kólna hratt en það var eitthvað sem ríkisstjórnin var svona í hálfgerðri afneitun með, vil ég segja, og það skorti mælikvarða á árangur, einmitt það sem hæstv. ráðherra nefndi hér réttilega áðan, vegna aukinna útgjalda, t.d. í biðlista í heilbrigðiskerfinu. Reyndar var það áberandi hversu mikið skorti á árangursmælingar í fjárlagafrumvarpinu 2019 og hvernig við ráðstöfuðum fjármunum. Þá er nærtækast, eins og ég segi, að horfa t.d. bara á biðlistana í heilbrigðiskerfinu. Það er ekki alltaf trygging á árangri að auka útgjöldin. Það hefur ekki tekist að vinna á biðlistunum en samt hafa útgjöld aukist.

Aukning í ríkisútgjöldum fyrir 2019 var að mínum dómi innstæðulaus þegar horft var á ríkisútgjöld á mann og má ætla að ríkisstjórnin hafi verið að reyna að setja einhvers konar met hvað það varðar, ef þannig má orða það. Ríkisstjórnin boðaði síðan fjáraukalög ofan á allt þetta. Það kemur því ekki á óvart, herra forseti, að uppgjörið sýni 67,4 milljarða kr. verri afkomu ef miðað er við fjárlög 2019. Samkvæmt ríkisreikningi var afkoman neikvæð um 38,9 milljarða. Samkvæmt fjárlögum 2019 átti ríkissjóður að skila jákvæðri afkomu upp á 28,6 milljarða, og þetta er svokallað aðlagað uppgjör samkvæmt fjárlagagrunni. Þarna er náttúrlega gríðarlegur munur á og þessi verri afkoma, samkvæmt uppgjöri, skýrist að mestu af því að tekjurnar voru ofmetnar í fjárlögum 2019 um 63,5 milljarða kr.

Það verður að segjast eins og er, forseti, að það er náttúrlega eitthvað að í áætlanagerð ríkisfjármála þegar um svo gríðarlegt ofmat á tekjum er að ræða og þarfnast að sjálfsögðu skýringa. Hvað var það sem fór úrskeiðis? Hvers vegna tókst mönnum að ofmeta þetta með þessum mikla mun? Það hefur farið lítið fyrir því að gerð hafi verið grein fyrir því en nauðsynlegt er að gera það. Við þurfum náttúrlega að læra af þessu og það er mjög mikilvægt fyrir rekstur ríkisins að allar áætlanir, og þar með tekjuáætlanir, standist eins og mögulegt er. Hér er frávikið bara allt of mikið, sem sagt 67,4 milljarða kr. verri afkoma en miðað var við í fjárlögum. Svo að ég fari yfir það aftur var hún neikvæð upp á 38,9 milljarða en samkvæmt fjárlögum átti hún að vera jákvæð upp á 28,6 milljarða. Þið sjáið að hér þurfa menn hreinlega að endurskoða aðferðafræði sína í þessu öllu saman til að slíkt endurtaki sig ekki vegna þess að auðvitað hefur þetta veruleg áhrif á fjárlagavinnuna og allt sem henni fylgir og fjármálaáætlun.

Það var vitað að annað af stóru flugfélögunum var mjög illa statt á þessum tíma og stefndi í gjaldþrot sem síðan raungerðist. Þarna var flugfélag sem flutti 35% allra farþega til landsins og það var sem sagt tekjufall fyrir ríkissjóð. Það var þarna alveg handan við hornið, af því að ég held að allir hafi gert sér grein fyrir því í hvað stefndi. En ríkisstjórnin kaus að horfa fram hjá því og það er náttúrlega hluti af því að þessi tekjuáætlun er svona vitlaus, það er bara einfaldlega þannig. Það var tekið að halla undan fæti á síðari hluta árs 2018 og hinn margumtalaði viðnámsþróttur ríkisins hefði getað verið meiri og betri hefði ríkisstjórnin haldið skynsamlega á ríkisfjármálunum.

Samkvæmt efnahagsreikningi hækkuðu skuldir um 337 milljarða kr. frá 2018 og námu 1.947 milljörðum kr. í lok árs 2019. Þetta er ríflega 20% aukning á skuldum. Maður spyr sig: Í hvað fór þessi skuldaaukning? Fór hún í rekstur? Fór hún í fjárfestingar? Fór hún í að standa straum af skuldbindingum gagnvart lífeyrissjóði? Þetta eru upplýsingar sem eiga, að mínum dómi, að liggja fyrir og þarfnast skýringa. Það er ekki mikil fyrirhöfn að gera það. Mér finnst þessu ábótavant, og það er nauðsynlegt að fá að vita hvers vegna skuldir hækka svona mikið. Er verið að taka skynsamlegar ákvarðanir eða er verið að setja þetta í rekstur sem síðan skilar ekki neinni arðsemi þegar upp er staðið? Sé einungis litið á rekstrarafkomuna þá var hún jákvæð um 42 milljarða kr. samanborið við 84 milljarða kr. Hafa ber í huga að þessi áform eru ekki samanburðarhæf við fjárlög.

Herra forseti. Ég ætla að fara aðeins yfir ófjármagnaðar lífeyrisskuldbindingar vegna þess að það er mjög mikilvægur þáttur. Ófjármagnaðar lífeyrisskuldbindingar ríkissjóðs voru 722 milljarðar kr. í lok 2019, jukust um tæp 12% sem er meira en síðustu tvö ár þar á undan. Þetta er náttúrlega gríðarlega há upphæð. Þetta er ófjármagnað, 722 milljarðar kr. Þannig námu ófjármagnaðar lífeyrisskuldbindingar tæplega fjórðungi af vergri landsframleiðslu í fyrra. Þá hækkuðu ófjármagnaðar lífeyrisskuldbindingar um rúm 20% á milli áranna 2015 og 2016 en um 17% árið þar áður. Þetta er með öðrum orðum stærð sem bara vex og bætist náttúrlega ofan á þá gríðarlegu skuldaaukningu sem ríkissjóður hefur þurft að taka á sig vegna veirufaraldursins eins og við þekkjum. Lífeyrisskuldbindingarnar aukast miðað við hvað fólki fjölgar á lífeyrisaldri og hvernig launin breytast í samfélaginu. Þetta er áhyggjuefni fyrir ríkissjóð til lengri tíma.

Það verður að mínum dómi, herra forseti, að fara að setja fram trúverðuga og raunhæfa áætlun um að lækka þessa upphæð, þessar ófjármögnuðu lífeyrisskuldbindingar sem eru einfaldlega allt of háar. Þetta er eitthvað sem þyrfti að liggja fyrir frá degi til dags. En það hefur ekki verið gert í langan tíma þannig að þetta er bara skuld sem eykst. Svona skuldbinding eykst náttúrlega með árunum og hún eykst ár eftir ár. Þeir sem nú eru við stjórnvölinn þurfa kannski ekki að hafa áhyggjur af því vegna þess að þetta er vandamál sem kemur seinna. Menn eru einhvern veginn að ýta þessum vanda á undan sér. En þetta kemur fyrr eða síðar í bakið á ríkissjóði, það er bara svoleiðis, og allar skuldbindingar og allar skuldir þarf á endanum að greiða, við þekkjum það öll. Það sama á við um þá miklu skuldaaukningu sem ríkissjóður stendur frammi fyrir núna vegna faraldursins. Þessi ríkisstjórn veltir þeim vanda einfaldlega yfir á næstu ríkisstjórn og það er alveg ljóst að næsta ríkisstjórn þarf að taka erfiðar ákvarðanir þegar kemur að því að ná niður skuldum ríkissjóðs vegna veirufaraldursins.

En svo er aftur á móti annað mál hvort þetta hafi allt saman verið skynsamlegar aðgerðir og hvort menn hafi vandað sig nógu mikið þegar þeir voru að opna fyrir þennan krana sem ríkissjóður hefur verið í veirufaraldrinum. Við sáum að úrræði, aðgerðapakkar eins og hlutabótaleiðin, var misnotað af stöndugum fyrirtækjum í upphafi þegar það kom fram. Það er að sjálfsögðu mjög dapurlegt þegar menn hafa ekki meiri áhyggjur af ríkissjóði en svo að þeir misnoti aðstöðu sína sem sýnir kannski að lagasetningin var ekki nógu vönduð, og hefði þurft að fara mun betur yfir það þegar lögin voru sett. Vissulega hafa einhver af þessum fyrirtækjum greitt þetta til baka og hefðu að sjálfsögðu aldrei átt að þiggja þessar bætur þar sem þau þurftu ekki á þeim að halda. En svona er þetta. Menn virðast margir hverjir gleyma því að ríkissjóður er jú sameiginlegur sjóður okkar allra og stendur undir velferðarkerfinu sem við viljum öll hafa eins öflugt og mögulegt er.

Þessar lífeyrisskuldbindingar eru sem sagt ófjármagnaðar upp á 722 milljarða og þessu þarf að bæta ofan á núverandi skuldir ríkissjóðs sem eru nú orðnar ansi háar. Ríkissjóður er búinn að bæta við sig miklum skuldum og er þar að auki með verulegar lífeyrisskuldbindingar á bakinu. Það er áhyggjuefni, herra forseti, að ekki hafi reglubundið verið lagt til hliðar vegna lífeyrisskuldbindinga ríkissjóðs. Við sjáum það núna hversu mikilvægt það er að hafa fyrirhyggjusemi þegar kemur að fjármálum ríkisins og sérstaklega þegar sækja þarf lánsfé og auka skuldir ríkissjóðs, hvernig menn nýta þá fjármuni, hvort þeir gagnist í raun eins og til var ætlast. Það þarf að sjálfsögðu að girða fyrir alla misnotkun og annað slíkt sem virðist alltaf koma upp þegar ríkissjóður er annars vegar. Það er eins og menn skilji ekki að þetta er sameiginlegur sjóður okkar allra og það skiptir okkur öll máli að hann geti sinnt sínu hlutverki, sem m.a. felst í því að halda uppi öflugu velferðarkerfi eins og ég nefndi.

Herra forseti. Ég hef hér rakið það sem ég sá við fyrstu sýn með því að fara í gegnum ríkisreikning 2019. Það er margt sem hefði mátt betur fara. Þá finnst mér það kannski standa upp úr hvernig menn hafa vanmetið tekjur ríkissjóðs, þ.e. þeir hafa áætlað þær allt of háar sem sýnir að ríkisstjórnin stóð ekki nógu föstum fótum á jörðinni með það hvert hagkerfið var að þróast á seinni hluta árs 2018. Það var farið að hægja mjög verulega á í hagkerfinu og verri afkoma, sem kemur þarna fram, skýrist af því að tekjur voru ofmetnar um eina 63,5 milljarða kr., sem er ekki nógu gott. (Forseti hringir.) Þetta er eitthvað sem við þurfum að sjá til að sé mun vandaðra svo að við þurfum ekki að kljást við það vandamál sem þessu fylgir áfram.