151. löggjafarþing — 21. fundur,  17. nóv. 2020.

menntastefna 2020--2030.

278. mál
[16:51]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Lilja Alfreðsdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Varðandi lesturinn og að styrkja grunnstoðirnar í menntakerfinu á fyrstu árunum er það gríðarlega mikilvægt. Ég vil benda hv. þingmanni á að það sem við erum að vinna að er umfangsmikil aðgerðaáætlun til að fara akkúrat í þetta. Ég ætla að nefna nokkra þætti. Það er til að mynda að námsgögnin séu þannig að þau höfði jafnt til drengja og stúlkna. Við erum að styðja mun betur við starfsþróun kennara með akkúrat þetta að leiðarljósi, þ.e. við erum komin með sérstök námskeið í samvinnu við menntavísindasvið sem einblína á hvernig við bætum lestrarfærni og lesskilning barna. Við erum með sérstök námskeið varðandi náttúruvísindin og stærðfræði. Þau eru þegar farin að skila árangri. Þetta gerum við allt til að bæta þennan grunn þannig að við getum sagt árið 2030: Hér er framúrskarandi menntakerfi þar sem börnin okkar eru hamingjusöm og það stenst alþjóðlegan samanburð. Þetta erum við að gera í mjög góðri samvinnu við menntavísindasvið. Eitt af því sem við erum að sjá, sem ég er einna stoltust af, er aukin aðsókn í kennaranám. Þegar ég tók við sem mennta- og menningarmálaráðherra vorum við að horfa upp á að mikill skortur yrði á kennurum árið 2032. Það fyrsta sem ég gerði var að fara í að setja fram trúverðuga áætlun um hvernig við ætluðum að gera þetta. Ríkisstjórnin samþykkti það og við höfum ekki séð jafn mikla aðsókn í kennaranám í áratugi vegna þessa.