151. löggjafarþing — 21. fundur,  17. nóv. 2020.

menntastefna 2020--2030.

278. mál
[17:35]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Lilja Alfreðsdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þá er nú svo gott, hv. þm. Inga Sæland, að ná í menntastefnuna (Gripið fram í.) og sjá hvernig við ætlum að gera þetta vegna þess að að sjálfsögðu er búið að hugsa út í þetta. Þar stendur, með leyfi forseta:

„Innleiðingu menntastefnunnar verði skipt í þrjú tímabil. Við upphaf hvers tímabils verði lögð fram innleiðingaráætlun ásamt aðgerðum og árangursmælikvörðum. Fyrsta áætlunin verði lögð fram og kynnt af ráðherra innan sex mánaða frá samþykkt tillögu þessarar.“

Hv. þingmaður minntist á það og segir að ekki hafi mikið breyst á þessum tíma. Niðurstöður úr hinni alþjóðlegu menntarannsókn PISA voru birtar árið 2018 eða 2019, afsakið, þetta gæti verið misminni hjá mér. (Gripið fram í.) — 2018. Það var auðvitað mæling sem átti sér stað 2015, 2016. Þannig að við erum núna og höfum verið á síðustu árum að móta stefnu sem er til þess gerð að ná bæði utan um grundvallarviðmið okkar og hugsun um jafnrétti til náms og að allir hafi þetta góða aðgengi sem okkur er svo mikilvægt. En við viljum líka vera fremst á meðal jafningja. Það var þannig árið 2000 að Ísland var í öðru sæti er varðaði lesskilning. En það hefur breyst og við höfum farið mjög gaumgæfilega yfir það hvers vegna það er. Menntastefnan endurspeglar það sem við þurfum að gera til þess að efla læsi og lesskilning. Við vitum hverja við þurfum að aðstoða betur.

Ég vil líka nefna að ríkisstjórnin fór í það að veita stuðning við bókaútgáfu. Hvað hefur gerst? Á einu ári jókst útgáfa barna- og ungmennabókmennta um 47%. Það er auðvitað gert til þess að börnin okkar hafi meira efni til að lesa.