151. löggjafarþing — 21. fundur,  17. nóv. 2020.

menntastefna 2020--2030.

278. mál
[17:37]
Horfa

Inga Sæland (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir. Ég hef í rauninni ekkert frekar að segja. Ég ítreka að það er ekki nóg að vera með fallega menntastefnu og það er ekki nóg að segja á blaðsíðu og PISA-kannanir og þetta og hitt. Við skorum þar eins illa og lélega og hugsast getur ef við berum okkur saman við nágrannaþjóðirnar þannig að ég myndi ekki einu sinni nefna hana hérna. En ég ítreka það enn og aftur að mér finnst að við eigum að gera börnin okkar læs áður en við spáum í nokkuð annað. Mér finnst að eina stefnan á öllu blaðinu ætti að vera læsi allra barna á Íslandi, hvar sem þau búa, þannig að þau eigi jöfn tækifæri til framtíðar og til náms til framtíðar. Það byggir allt á því að þau séu lesandi, skrifandi og reiknandi. Þessar greinar hafa gjarnan verið taldar vera okkar grundvallargreinar í öllu og sem fylgja okkur í gegnum allt menntakerfið og allt lífið í raun og veru.

Það þarf að mylja niður múrana sem gera það að verkum að börnin okkar sitja enn þá mörg hver, allt of mörg, við það borð að vera nánast ólæs. Þess vegna segi ég enn og aftur: Ef það væri einhverja breytingu að sjá, ef það væri einhver samdráttur í því þegar verið er að gera mælingar og skoða hvernig börnunum okkar reiðir af — en þetta ólæsi eða lélegi lesskilningur virðist ekki vera á undanhaldi, því miður. Ég get ekki betur séð, miðað við orð þeirra kennara sem ég hef rætt við, en að lesskilningi sé hreinlega að hraka og þau skilji varla íslensku, skilji varla mörg orð og hugtök sem við höfum venjulega notað og annað slíkt. Þau virðast bara vera að detta úr málinu. Þetta er alvarleg staða, virðulegi forseti. Mér finnst þetta alvarleg staða.