151. löggjafarþing — 21. fundur,  17. nóv. 2020.

menntastefna 2020--2030.

278. mál
[17:52]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Lilja Alfreðsdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er hárrétt að við verðum að hafa ástríðu fyrir því sem við erum að gera til að ná árangri. Þess vegna leggjum við mikla áherslu á að menntun sé fyrir alla og að námið mæti áhuga og hæfni hvers og eins. Menntakerfið þarf að vera það stórt að það nái utan um þetta. Hins vegar er það hárrétt sem komið hefur fram í þessum góðu umræðum, að ef ekki er nægilegur lesskilningur hjá viðkomandi barni mun það ekki þróa með sér ákveðna ástríðu fyrir viðfangsefninu. Þess vegna verðum við að styðja við börnin fyrr. Það er miklu auðveldara að aðstoða ungan dreng sem glímir við lesblindu þegar hann er fimm, sex og sjö ára, en þegar hann er orðinn 12 og 13 ára. Eins og staðan er í dag hefur það líklega aldrei verið jafn mikilvægt að börnin okkar hafi góða ritfærni og lesskilning vegna þess að þau nota snjalltæki mjög mikið og barn sem á erfitt með færa hugsun sína niður á blað eða í gegnum snjalltæki verður líka félagslega einangrað. Þannig að það er mikið undir og ég tel að Ísland sé þannig samfélag að við getum náð utan um þetta. Við vitum nákvæmlega hvað þarf að gera og hvernig við gerum það.

Ég vil nefna líka eitt, ég geri það líklega í næsta andsvari, varðandi lesskilninginn og hvernig orðaforðinn hefur verið að þróast, sem er ein lykilbreytan í lesskilningi. Ég ætla að fara yfir það betur hér á eftir.