151. löggjafarþing — 21. fundur,  17. nóv. 2020.

menntastefna 2020--2030.

278. mál
[18:24]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Lilja Alfreðsdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil upplýsa hv. þingmann um það að við erum núna að þróa mælikvarða eða mælitæki til að mæla lesskilning, þannig að það fari saman leshraði og lesskilningur. Eitt af því sem við sjáum þegar við skoðum hina alþjóðlegu menntarannsókn, PISA, en menn hafa mismunandi skoðanir á henni, að lesskilningur barnanna okkar er að minnka. Við spyrjum okkur auðvitað: Bíddu, hvað er að gerast? Eitt af því er að orðaforði barna í íslensku er ekki nógu mikill. Ef þú hefur ekki skilning á um, ef ég man rétt, 88% eða 90% af því sem er fyrir framan þig, þá minnkar ályktunarhæfnin og sú gagnrýna hugsun sem þarf að hafa til að geta leyst verkefnið. Þess vegna erum við að fara í það að auka orðaforðann. Við erum að þróa námskeið og förum í starfsþróun til að styðja betur við hann og ná honum aftur upp, ef ég má orða það þannig.

Mig langar aðeins að koma inn á rödd nemenda og af hverju hún er þarna í stefnunni. Það hefur komið fram í umræðum að við þyrftum að hlusta betur. Ég get bara fullvissað þingheim um að við erum að hlusta. Mikið af því sem við erum að gera þessa dagana snýr að því, t.d. með þann sveigjanleika sem er í námsmatinu, það er verið að koma til móts við það nánast alls staðar. Einnig vil ég nefna að við höfum verið að hlusta og farið í meiri sveigjanleika varðandi Menntasjóðinn. Við tökum tillit til þess að námsframvinda er ekki nákvæmlega eins núna í Covid og hún var áður, þannig að við erum svo sannarlega að hlusta. Rödd nemenda er í menntastefnunni.