151. löggjafarþing — 21. fundur,  17. nóv. 2020.

menntastefna 2020--2030.

278. mál
[18:43]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Lilja Alfreðsdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mig langar að nefna nokkra þætti í menntastefnunni sem ná utan um það sem kom fram í máli hv. þingmanns. Í fyrsta lagi er fjallað um nám við allra hæfi og þar kemur fram, með leyfi forseta:

„Samfélaginu ber skylda til þess að hlúa sem best að velferð barna og ungmenna og tryggja öllum tækifæri til þess að þroskast og dafna á eigin forsendum innan menntakerfisins. Mikilvægt er að tryggja að allir finni sig í menntakerfinu og að stuðlað sé að jafnrétti innan þess.“

Einnig langar mig að nefna, varðandi móðurmálið, að í menntastefnunni kemur fram, með leyfi forseta:

„Við stöndum vörð um og aukum áhuga á íslenskri tungu og menningu hjá öllum kynslóðum. Tryggja þarf að íslenska og íslenskt táknmál verði notað á öllum sviðum samfélagsins, íslenskukennsla verði efld á öllum skólastigum og að framtíð íslenskrar tungu í stafrænum heimi verði tryggð.“

Hér er lögð mjög mikil áhersla á móðurmálið. Einnig vil ég nefna að eitt af leiðarljósunum í menntastefnunni, og þar er ég hjartanlega sammála hv. þingmanni, er einmitt það fjölbreytta menningarsamfélag sem við búum í. Þar er einmitt nefnt að Ísland er fjölmenningarsamfélag sem nýtir þá auðlind sem felst í fjölmenningarlegu skólastarfi, fagnar margbreytileika nemenda, þ.e. barna, og nýtir til að efla samfélagið. Það er alveg gríðarlega mikilvægt að við náum vel utan um þetta og er einn af þeim þáttum sem við nefnum fyrst í menntastefnunni.