151. löggjafarþing — 21. fundur,  17. nóv. 2020.

menntastefna 2020--2030.

278. mál
[18:48]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Lilja Alfreðsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmönnum fyrir mjög málefnalega umræðu um menntastefnu fyrir árin 2020–2030. Þar er farið yfir alla helstu þætti sem ég hef mikla trú á að muni gera að verkum að Ísland verði í fremstu röð er varðar menntun alla ævi. Ég hef mikla trú á þeim fimm stoðum sem við erum búin að fara yfir hér í þingsal, í fyrsta lagi að menntakerfið sé þannig að það séu jöfn tækifæri fyrir alla. Í öðru lagi að kennsla verði í fremstu röð og þar leggjum við mjög mikla áherslu á kennarann og það samfélagslega mikilvæga hlutverk sem kennarinn gegnir í öllum samfélögum. Eitt af því sem einkennir öll menntakerfi sem eru framúrskarandi er sú staðreynd að umgjörð kennarans og kennarastarfsins er mjög góð. Þriðja stoðin er hæfni til framtíðar þar sem við nefnum alla þá þætti sem skipta máli til að Ísland sé samkeppnishæft, geti staðist alla samkeppni varðandi menntun. Í fjórða lagi leggjum við áherslu á vellíðan og setjum hana í öndvegi af því að við teljum mjög mikilvægt að börnunum okkar og unga fólkinu líði vel í skóla. Að lokum leggjum við áherslu á gæði, að við séum stöðugt að hugsa um hvernig við getum bætt kerfið okkar.

Virðulegi forseti. Það hefur verið mjög ánægjulegt að mæla fyrir tillögu til þingsályktunar um menntastefnu fyrir árin 2020–2030. Ég tel að það sem er kjarni menntastefnuna sé einmitt það viðhorf að við erum ekki að læra fyrir skólann heldur fyrir lífið og það sé besta leiðin til að efla íslenskt samfélag.