151. löggjafarþing — 21. fundur,  17. nóv. 2020.

vextir og verðtrygging o.fl.

38. mál
[19:39]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni en ég verð að viðurkenna að ég er enn þá alveg jafn stórt spurningarmerki ef það eru einmitt verðtryggðu lánin sem eru hagstæðari. Hv. þingmaður kom inn á að fátæka fólkinu væri beint inn í þá leið vegna þess að það gæti greitt af þeim lánum en ekki óverðtryggðu lánunum. Samt ætlum við að banna lánin sem þetta fólk getur raunverulega tekið og getur staðið undir afborgunum af.

Virðulegur forseti. Ég sé þetta ekki ganga upp. Mig langar að ítreka það sem ég sagði áðan, ég held að verðbólgan sé málið. Ekkert okkar vill sjá eitthvert verðbólguskot og það er mjög eðlilegt að við ræðum hvernig við verjum heimili landsins fyrir einhverju slíku ef til þess gæti komið. Þá skulum við á sama tíma muna að við búum við hagstæðustu vaxtakjör sem við höfum nokkurn tímann séð og ég held að það sé einmitt vegna þess að við höfum boðið upp á valfrelsi um hvar lánið er sótt. Lántakanda er ekki stýrt. Það þarf ekki að fara í einhvern einn ríkissjóðsbanka Íbúðalánasjóðs sem var hér með bundin verðtryggð lán til lengri tíma og enginn komst út úr því. Núna getum við sem fasteignaeigendur með fasteignalán farið á milli staða og valið bestu kjörin. Margir hafa valið óverðtryggðu leiðina en ekki allir. Ég er t.d. sjálf með mín lán verðtryggð og það er ljóst að flestir velja það, einmitt vegna afborgana.

Það að hafa möguleika á þessum lánum hefur verið leiðin fyrir ungt fólk til að eignast fasteignir. Þau eru ekki fullkomin og maður áttar sig á því að það er hundfúlt að sjá lánin sín hækka í hvert skipti sem maður borgar. Á sama tíma horfi ég á að þetta er líka lífeyrissjóður afa míns og ömmu. Ef verðbólga er hér eiga þau þá rétt á að greiðslurnar til þeirra taki hækkunum í samræmi við hana? Hefur Flokkur fólksins ekki einmitt talað fyrir því að horfa þurfi á það í útgreiðslum til þeirra sem minnst hafa handa á milli? (Forseti hringir.)

Virðulegur forseti. Ég hlakka til að takast á við þetta mál í nefndinni. Kannski kvikna einhver ljós hjá mér en kannski áttar hv. þingmaður sig líka á því að það er margbúið að fara yfir málið og niðurstaðan hefur hingað til verið sú (Forseti hringir.) að það er best að hafa valfrelsi.