151. löggjafarþing — 21. fundur,  17. nóv. 2020.

skráning einstaklinga.

82. mál
[20:55]
Horfa

Flm. (Björn Leví Gunnarsson) (P):

Virðulegur forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um skráningu einstaklinga, sveitarfélag fyrsta lögheimilis. Stutt og einfalt mál. Í 1. gr. segir:

„Á eftir orðinu „fæðingarstaður“ í 4. tölul. 1. mgr. 6. gr. laganna kemur: og, í tilviki þeirra sem fæðast hér á landi, sveitarfélag fyrsta lögheimilis.“

Í 2. gr. segir: „Lög þessi öðlast þegar gildi.“

Frumvarpið hefur áður verið lagt fram á 150. og 149. þingi en var ekki afgreitt. Með því voru lagðar til breytingar á 1. mgr. 7. gr. barnalaga. Í samræmi við ábendingar Þjóðskrár Íslands í umsögn um málið á 150. löggjafarþingi er með frumvarpi þessu lögð til breyting á lögum um skráningu einstaklinga, nr. 140/2019.

Í svari samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra á þskj. 659 á 148. löggjafarþingi kemur fram að fæðingarstaður barns er heiti þess sveitarfélags þar sem fæðing á sér stað. Í skýrslu frá fæðingaskrá fyrir árið 2016 kemur fram að 74,1% allra fæðinga voru þá á Landspítalanum, 9,8% á Sjúkrahúsinu á Akureyri, 7,3% á Heilbrigðisstofnun Vesturlands á Akranesi, 2,1% á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja, 1,5% á Heilbrigðisstofnun Suðurlands á Selfossi, 0,1% á Heilbrigðisstofnun Suðurlands í Vestmannaeyjum, 0,9% á Heilbrigðisstofnun Vestfjarða á Ísafirði, 1,9% á Heilbrigðisstofnun Austurlands í Neskaupstað, 0,3% á leið á fæðingarstað og 2,1% fæðinga eru heimafæðingar.

Samkvæmt þessu fæðast börn í raun aðallega í átta sveitarfélögum í landinu.

Nauðsynlegt er að halda utan um fjölda fæðinga á heilbrigðisstofnunum og á öðrum stöðum en jafnframt geta þess í hvaða sveitarfélagi barn er fyrst skráð með lögheimili. Endurspeglar slík skráning með réttari hætti uppruna barns óháð því hvert móðir þurfti að leita til að fæða barnið en oft þurfa konur af illri nauðsyn að fara langar vegalengdir til að sækja fæðingarþjónustu. Má þar nefna konur í Vestmannaeyjum sem nær undantekningarlaust fara til Reykjavíkur til að fæða börn sín en einungis þrjú börn fæddust í Vestmannaeyjum árið 2017. Skýrist það aðallega af því að þjónustustig fæðingardeildar í Vestmannaeyjum er D1, svokallað, þ.e. lítil fæðingardeild á heilbrigðisstofnun þar sem ljósmæður starfa auk heilsugæslulækna. Þar er ekki skurðstofa og ekki starfandi skurðlæknir eða fæðingarlæknir. Þótt barnið fæðist í Reykjavík vegna aðbúnaðar fæðingarþjónustu í Vestmannaeyjum er það hins vegar Vestmannaeyingur og er rétt að skráning í þjóðskrá endurspegli það.

Til þess að tryggja með frekari hætti skráningu á uppruna barns óháð fæðingarstað er með frumvarpi þessu lagt til að í þjóðskrá skuli skrá það sveitarfélag þar sem barn er fyrst skráð með lögheimili.

Í umsögnum eða þegar aðilar sveitarfélaga koma til nefnda og maður hefur verið að spyrja um einmitt þessi mál þá hefur borið á góma að erfitt sé að fá tölfræði um það hvernig þróun hefur verið í barnsfæðingum eða nýbúum í hverju sveitarfélagi, þeirra sem fæðast þar. Þessi gögn myndu tvímælalaust gagnast sveitarfélögunum til að fylgjast betur með því hvernig náttúruleg fólksfjöldaþróun er.