151. löggjafarþing — 21. fundur,  17. nóv. 2020.

tekjuskattur.

86. mál
[21:14]
Horfa

Flm. (Óli Björn Kárason) (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir. Ég ætla ekkert að útiloka þá hugmynd sem hér er lögð fram. Ég ætla þó strax að benda á einn fingurbrjót í því. Fyrir utan það markmið sem er með þessu frumvarpi, þ.e. að auðvelda barnafjölskyldum, auðvelda fjölskyldum sem glíma við veikindi heimilismanns og þurfa á aðstoð að halda og fyrir utan að koma til móts við eldri borgara sem þurfa á ákveðinni þjónustu að halda, heimilisaðstoð, þrif jafnvel, eldamennsku o.s.frv., þá erum við líka að reyna að draga upp á yfirborðið ákveðna svarta atvinnustarfsemi. Þessi svarta atvinnustarfsemi kemst ekki upp á yfirborðið nema sá sem greiðir fyrir hana hafi hvata til þess að upplýsa um þá greiðslu. Hafi ég skilið tillögu hv. þingmanns rétt þá er ekki slíkur hvati fyrir hendi þó að viðkomandi vinni vinnuna, að hún sé gefin upp til þess að fá einhvers konar endurgreiðslu á virðisaukaskatti með þeim hætti sem hér er gert.

Það sem við erum að segja: Við erum að hvetja þá sem kaupa vinnuna til að gefa upp til skatts þær launagreiðslur sem greiddar eru. Þær koma þá upp á yfirborðið og um leið, frú forseti, gerist það að réttindi þeirra sem eru að sinna þessum störfum verða aukin; réttindi til lífeyrisgreiðslna, réttindi til atvinnuleysisbóta o.s.frv. Ég held að við séum með akkúrat þessari aðferð að ná þessum markmiðum með tvennum hætti: Annars vegar að koma til aðstoðar við þá sem þurfa að kaupa þessa þjónustu og hins vegar þá sem veita hana en hafa kannski verið undir radar okkar, sem við viljum ekki að sé.