151. löggjafarþing — 22. fundur,  18. nóv. 2020.

störf þingsins.

[15:02]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Á síðustu árum eða öllu heldur áratugum hefur höfuðborgarsvæðið verið skilið eftir í uppbyggingu samgöngumannvirkja. Á tíu ára tímabili fóru aðeins 17% af nýframkvæmdafé Vegagerðarinnar til höfuðborgarsvæðisins þar sem um 70% íbúa búa. Góðu fréttirnar eru þær að við höfum á þessu kjörtímabili tryggt breytingar á þessari þróun með samkomulagi við sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu um að á næstu 15 árum verði ráðist í einar umfangsmestu samgönguframkvæmdir sögunnar, sem flýtir úrbótum á þessu svæði. Hér er um að ræða fjármagn bæði til stofnvegaframkvæmda með mislægum gatnamótum og stokkum, hjólreiðastíga og borgarlínu, gríðarlega mikilvægt mál sem við eigum að fagna. Og hvað svo sem Miðflokkurinn eða Staksteinar Moggans segja þá er hér um raunhæfa og góða lausn að ræða sem er farin af stað. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)

Sveitarfélögin þurfa að standa við sitt en meira þarf til. Við þurfum nefnilega bæði borgarlínu og Sundabraut. Sundabraut er einn dýrasti raunhæfi framkvæmdamöguleikinn sem til skoðunar er í vegakerfinu á Íslandi. Þrátt fyrir mikla aukningu í framlögum til nýframkvæmda á síðustu árum er ljóst að ef Sundabrautin ætti að fjármagnast með þeim hætti þyrfti annaðhvort að auka umtalsvert opinber framlög til nýframkvæmda umfram það sem við höfum þegar gert eða minnka mjög á öðrum stöðum. Hvorug þessara leiða er raunhæf eða æskileg.

Þess vegna hyggst ég leggja fram þingsályktunartillögu, ásamt fleiri þingmönnum, þar sem hæstv. samgönguráðherra verði falið að bjóða út hönnun, fjármögnun, framkvæmd og rekstur Sundabrautar í einkaframkvæmd. Þannig fengju einkaaðilar tækifæri til að glíma við það sem hið opinbera hefur verið með til umræðu í 50 ár. Sjáum hvort einkaframtakið treystir sér til að framkvæma verkefni frá A til Ö án fjármagns frá ríkinu en fái í staðinn heimild til að rukka veggjöld.