151. löggjafarþing — 22. fundur,  18. nóv. 2020.

störf þingsins.

[15:16]
Horfa

Ásmundur Friðriksson (S):

Virðulegi forseti. Umræðan um hópsmit á Landakoti ætti að beinast að átaki í bættum öldrunarlækningum, þjónustu við aldraða og hruma og í að koma að lausnum á svokölluðum fráflæðisvanda Landspítalans. Það er mikilvægt að við drögum lærdóm af því sem fór úrskeiðis á Landakoti en látum af leit að sökudólgum, sem er almennt góð regla. Heilbrigðisstarfsfólk sem unnið hefur daga og nætur, vikur og mánuði til að tryggja sem best öryggi okkar allra á skilið að engar leiðir verði útilokaðar til að bregðast við sem fyrst með lausnum á svokölluðum fráflæðisvanda Landspítalans.

Virðulegur forseti. Afleiðingar hópsmitsins fyrir sjúklinga, aðstandendur og heilbrigðisstarfsfólk eru skelfilegar. Þeim mörgu sem eiga um sárt að binda votta ég hjartans samúð. Það er afar mikilvægt að leysa úr bráðum vanda Landspítalans og skoða allar tiltækar lausnir sem nú eru í boði. Vífilsstaðir eru ekki framtíðarlausn fyrir þá starfsemi sem þar er til bráðabirgða. Sérfræðingar og reynt heilbrigðisstarfsfólk hefur bent á þær lausnir sem hægt er að grípa til með ótrúlega skömmum fyrirvara. Það má engan tíma missa. Þegar hjúkrunarheimili eða fyrirtæki á heilbrigðissviði treysta sér til og geta brugðist við með lausnum sem geta leyst bráðavanda til lengri og skemmri tíma verða að koma viðbrögð við því. Við verðum að bregðast við af kjarki og áræði og taka ákvörðun um bestu leiðirnar fyrir sjúklingana og kerfið í heild, að besta lausnin verði valin. Öryggi sjúklinga og starfsfólks er undir því komið að fljótt verði brugðist við. Virkja ætti strax þá þekkingu og reynslu sem býr í vel menntuðu heilbrigðisstarfsfólki með reynslu af störfum á hjúkrunarheimilum og sem hefur til umráða húsnæði, rekstur, starfsfólk, tæki og aðbúnað sem stenst þær kröfur sem við gerum til slíks rekstrar.