151. löggjafarþing — 22. fundur,  18. nóv. 2020.

störf þingsins.

[15:25]
Horfa

Sara Elísa Þórðardóttir (P):

Forseti. Þjóðarskútan er stopp. Meiri hluti áhafnarinnar er ósamstíga og stefnir hvor í sína áttina. Því er skútan stopp úti á miðjum sjó. Niðurstaðan er að sjálfsögðu að við stöndum öll í stað með allt of marga hluti. Ólgan á stjórnarheimilinu hefur aukist undanfarið vegna ákvörðunar um að leyfa sóttvarnayfirvöldum að stýra ferðinni. Hefur einn stjórnarliði, hv. þm. Brynjar Níelsson, tekið mjög djúpt í árinni og sagt að hans eigin ríkisstjórn sé að beita þjóðina alræði.

Í kvöldfréttum í gær sagði hæstv. heilbrigðisráðherra að það sjáist í ljósið við endann á göngunum og kallaði eftir auknu úthaldi nú þegar farið væri að glitta í bóluefni. Þar viðurkenndi hæstv. ráðherra í raun eitt. Hún viðurkenndi í fyrsta sinn að núverandi staða í samkomutakmörkunum og landamæratakmörkunum verði í raun status quo fram að því að þjóðin verður bólusett. Staðan er sú að margir hafa misst lífsviðurværi sitt og margir bíða á milli vonar og ótta. Covid mun skilja eftir sig sviðna jörð. Því er alveg klárt mál að jafnvel þó að styttist í annan endann á Covid-göngunum skín ekkert sérstaklega bjart ljós við enda þeirra fyrir mjög marga. Þetta mætti ríkisstjórnin hafa hugfast. Nú væri skynsamlegt að stjórnin kæmi sér saman um stefnu og nálgun, kæmi skútunni á kúrs og eyddi orkunni í að hjálpa þeim sem eiga á hættu að falla frá borði.

Forseti. Ég legg til að meiri hlutinn finni rifrildismálum sínum farveg, leysi úr þeim og setji fram vandaðar sviðsmyndir út frá heildarsamhengi samfélagsins, sem hún starfar tímabundið í umboði fyrir, í stað þess að láta alla þjóðina mara í hálfu kafi með sér eins og staðan er nú.