151. löggjafarþing — 22. fundur,  18. nóv. 2020.

nýsköpun í ylrækt og framleiðsla ferskra matvara til útflutnings.

[15:43]
Horfa

ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Herra forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þingmanni fyrir að vekja athygli á málefnum nýsköpunar í ylrækt og framleiðslu ferskra matvara til útflutnings með þessari umræðu hér. Ég tek heils hugar undir það að við eigum mjög góða möguleika í framleiðslu matvara hér á landi, sérstaklega ef hugvit, nýsköpun og sjálfbær nýting auðlinda er höfð að leiðarljósi. Aukin verðmætasköpun í matvælaframleiðslu með nýtingu á grænni orku er eitt af stóru tækifærunum sem blasa við okkur Íslendingum. Með endurnýjanlegri orku, hreinu vatni og faglegu starfsumhverfi erum við í góðri stöðu og umfram aðrar þjóðir til að rækta og framleiða hágæðamatvæli á heimsvísu. Þannig drögum við ekki aðeins úr þörf á innflutningi á matvælum heldur opnast sömuleiðis tækifæri fyrir útflutning á hágæðavöru á erlenda markaði.

Hlutverk stjórnvalda er hér að skapa skilyrði og farveg til þess að starfsemi af slíku tagi nái að byggjast upp og koma til móts við þær hugmyndir og þann kraft sem býr vissulega í frumkvöðlum um allt land á þessu sviði. Sjálfbær nýting orkuauðlinda, fjölnýting auðlindastrauma og minni orkusóun eru hluti af lykilmarkmiðum og leiðarljósum orkustefnu fyrir Ísland til ársins 2050, sem við kynntum ekki fyrir löngu síðan. Við erum að vinna aðgerðaáætlun til að fylgja henni eftir og þar verður m.a. lögð áhersla á stuðning við fjölnýtingu auðlindastrauma frá virkjunum, t.d. með uppbyggingu grænna iðngarða í kringum jarðvarmavirkjanir.

Fyrirtæki hafa verið að koma fram á sviði fjölnýtingar jarðvarma, svo sem Orkídea á Suðurlandi og Eimur á Norðausturlandi. Verkefni Orkídeu er nýtt samstarfsverkefni um nýsköpun á Suðurlandi í samstarfi Landsvirkjunar, Samtaka sunnlenskra sveitarfélaga, Landbúnaðarháskóla Íslands og sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra. Verkefnið snýst um uppbyggingu orkutengdra tækifæra við matvælaframleiðslu og líftækni, sjálfbæra nýtingu auðlinda og undirbúning svæðanna til að taka á móti orkutengdri nýsköpun. Það er auðvitað þetta samstarf, eins og hv. þingmaður kom inn á, sem skiptir svo ofboðslega miklu máli, að menn stilli saman strengi og taki ákvörðun saman um að komast á einhvern ákveðinn stað. Eitt meginmarkmið samstarfsins er að auka verðmætasköpun í matvælaframleiðslu í landinu og gera framleiðsluna umhverfisvænni með nýtingu á grænni orku og þannig auka tækifæri fyrir íslenska matvælaframleiðendur til að vera samkeppnishæfir á alþjóðamarkaði.

Þá er dæmi eins og á Hellisheiði þar sem ræktaðir eru örþörungar á vegum fyrirtækisins Algaennovation Iceland. Þar er um að ræða samstarfsverkefni með jarðhitagarði Orku náttúrunnar í Ölfusi þar sem fyrirtækið nýtir rafmagn, heitt vatn og kalt og koltvísýring beint frá jarðvarmavirkjuninni á Hellisheiði. Svo er það fiskeldisfyrirtækið Stolt Sea Farm sem er við hliðina á Reykjanesvirkjun og nýtir affallsvatn frá virkjuninni í eldi á hitabeltisfisktegund til útflutnings.

Það eru mikil tækifæri sem liggja í ylrækt og nýtingu jarðvarma til matvælaframleiðslu. Það hafa verið stigin mikilvæg skref í uppbyggingu hátæknigróðurhúsa hér á landi. Dæmi um slíkt gróðurhús er að finna hjá fyrirtækinu Vaxa sem ræktar matjurtir á mörgum hæðum með led-ljósi, eins og hv. þingmaður kom inn á, nýting á landrými, orku og vatni er þannig hámörkuð. Það er mjög merkilegt að koma þangað inn og sjá hvernig er hægt að nýta tæknina með þeim hætti sem þar er gert. Með ræktun á mörgum hæðum minnkar þörf á landsvæði sem aftur eykur möguleika á staðsetningu nálægt mörkuðum.

Svo erum við með Tækniþróunarsjóð sem hefur styrkt ýmis nýsköpunarverkefni á sviði matvælaframleiðslu og gróðurhúsatækni og þar er dæmi um þróun á led-lýsingum í gróðurhúsum. Eins og hv. þingmaður kom inn á varðandi Matvælasjóð þá skiptir hann miklu máli og stofnun hans og framlög hans sem hafa verið aukin frá því sem áður var til málaflokksins. Hlutverk hans er skýrt og í takt við það sem hv. þingmaður er hér að spyrja um og leggja áherslu á að fjalla um; að styrkja þróun og nýsköpun við framleiðslu og vinnslu matvæla úr landbúnaðar- og sjávarafurðum, það eru þessi sömu áhersluatriði. Sjóðnum er líka heimilt að styðja við vöruþróun og markaðssókn á erlendum mörkuðum sem skiptir máli fyrir okkur og við þurfum að bæta okkur enn frekar í. Við höfum auðvitað stóraukin framlög í Tækniþróunarsjóð og það er gert ráð fyrir stórauknum framlögum í sjóðinn í frumvarpi til fjárlaga næsta árs.

Svo skiptir máli hið almenna umhverfi varðandi endurgreiðslur til fyrirtækja vegna rannsókna og þróunar þar sem við höfum líka aukið við. Þegar hugað er að möguleikum á matvælaframleiðslu til útflutnings er ljóst að hagkvæmir flutningar til og frá landinu skipta auðvitað sköpum um samkeppnishæfni. Flutningskostnaður héðan hefur verið hærri en flutningskostnaður helstu keppinauta en við getum mögulega bætt stöðu okkar þar í framtíðinni með hagkvæmari flutningum, bæði á sjó og í lofti, þannig að tækifærin eru til staðar ef við berum gæfu til að halda vel á málum. Í grunninn eru helstu atriðin sem skipta máli, að mínu viti, skilvirkar leikreglur, skýr stefnumörkun eins og hv. þingmaður kom inn á. Við höfum bætt þar verulega úr, (Forseti hringir.) þessar stefnur tala allar saman. Við erum búin að taka ákvörðun um að við ætlum að fara þangað. Það er bara spurning um hversu hratt við getum gert það og með hvaða aðgerðum. Svo er það samkeppnishæft umhverfi, (Forseti hringir.) viðhorf samfélagsins, viðhorf atvinnulífsins og ákvörðun, sem ég lít svo á að við höfum þegar tekið.