151. löggjafarþing — 22. fundur,  18. nóv. 2020.

nýsköpun í ylrækt og framleiðsla ferskra matvara til útflutnings.

[15:48]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M):

Herra forseti. Ég fagna þessari umræðu alveg sérstaklega. Ég lít þannig á að stærstu tækifæri okkar nú sem þjóðar, bæði í bráð og lengd, séu einmitt að nýta þá möguleika sem við eigum í jarðhita og vatni til að auka hér matvælaframleiðslu, fyrst og fremst til að brauðfæða okkur sjálf, en einnig til þess að flytja út, vegna þess að okkur mun á næstu misserum skorta mjög gjaldeyri til að reisa landið við eftir Covid. Ég tel að þetta sé fljótlegasta leiðin til að gera það, þ.e. að koma á stóraukinni gróðurhúsarækt og stórauknu landeldi.

Það er ágætt að vekja stjórnvöld með þeim hætti sem hv. flutningsmaður gerir með þessari umræðu vegna þess að í sjálfu sér geta stjórnvöld strax lagt drjúga hönd á plóg við að koma þessu á. Það er í fyrsta lagi að verðleggja rafmagn til gróðurhúsaræktar á sama hátt og til annarrar stóriðju. Það er mjög einföld ákvörðun og fljótlegt að taka hana. Í öðru lagi getur ríkisstjórnin stuðlað að því að þeir aðilar sem nú hafa uppi áform um stórt landeldi, eins og t.d. við Þorlákshöfn, geti ráðist í það, eins og viðrað hefur verið að tilvonandi iðnaðarver á Reykjanesi verði laxeldi. Það er líka bara ákvörðunartaka. En fyrst og fremst þurfa stjórnvöld nú að kappkosta að eftirlitsaðilar sem gefa út leyfi fyrir þessar framkvæmdir og fyrir svona vinnslu séu ekki að eyða tíma sínum í að elta uppi einyrkja sem eru t.d. að rækta nokkrar bleikjur í tjörn, heldur einhendi sér í að stytta þann tíma sem þessi stórvirki á landi, t.d. í eldi, þurfa til þess að þau áform komist á laggirnar sem allra fyrst.