151. löggjafarþing — 22. fundur,  18. nóv. 2020.

nýsköpun í ylrækt og framleiðsla ferskra matvara til útflutnings.

[16:12]
Horfa

Þórunn Egilsdóttir (F):

Hæstv. forseti. Ég þakka fyrir þessa góðu og þörfu umræðu sem er okkur öllum mikilvæg. Víða um land er öflugt fiskeldi og hefur jafnvel verið lengi. Það blasir við að það er vaxandi atvinnugrein og sterk stoð í mörgum byggðum landsins. Verðmætasköpunin er óumdeild, en því miður er það svo að stór hluti af íslenskum eldisfiski er fluttur óunninn til annarra landa. Því til staðfestingar má nefna að samkvæmt stefnu ASÍ, sem kölluð er Rétta leiðin, er talið að þjóðarbúið verði af milljörðum árlega vegna útflutnings á óunnum fiski. Þarna liggja klárlega tækifæri því að það er okkur öllum morgunljóst að hérlendis er mikil þekking á vinnslu þessara afurða. Bæði er þekkingin gömul og ný. Við erum í öllum færum til að gera góða hluti og í raun er magnað að sjá hvað grænmetisbændur eru að gera í snjöllum útfærslum á nýtingu lands, vatns og ljóss. Oft hef ég átt samtöl við hæstv. ráðherra um raforkukostnað og impra rétt á því hér, svona til að hafa sagt það, herra forseti.

Það er skylda okkar að nýta allar þær auðlindir sem við erum svo lánsöm að hafa aðgang að. Það eru sannarlega forréttindi að hafa greiðan aðgang að heilnæmum og hollum matvælum. Þeim gæðum eigum við að deila með öðrum. Þótt við séum smá í heildarmyndinni þá búum við í gjöfulu landi sem við höfum til tímabundinna afnota. Það er stjórnvalda að styrkja innviðina svo atvinnulífið dafni sem best. Það er gott að heyra hæstv. ráðherra tala skýrt um stefnuna í þessum málum. Við erum með góð áform og við þurfum að fylgja þeim eftir.

Þess vegna langar mig af þessu tilefni að nefna hugmynd um að móta stefnu um stórátak til að efla fullvinnslu óunninna sjávarafurða (Forseti hringir.) og matvæla og útflutning á þeim. Bjóðum erlendum ríkjum upp á alvöru íslenskt, heilnæmt matarhlaðborð.