151. löggjafarþing — 22. fundur,  18. nóv. 2020.

nýsköpun í ylrækt og framleiðsla ferskra matvara til útflutnings.

[16:14]
Horfa

Sara Elísa Þórðardóttir (P):

Virðulegi forseti. Ylrækt er nú þegar mjög mikilvægur hluti af matvælaframleiðslu á Íslandi, af matvælaöryggi okkar, en það eru einnig mörg ný spennandi verkefni komin af stað eða í bígerð, t.d. í hárækt eða ræktun á fjarlægum plöntum eins og wasabi og lárperu. Við verðum að taka sjálfbærni alvarlega strax í dag og huga vel að skipulagi á því svæði sem við höfum til umráða. Vandamálið er hnattrænt og við verðum að sinna okkar hluta.

Forseti. Í fyrri ræðu minni kom ég inn á þingmál okkar Pírata um kjötrækt. Nú held ég áfram þar sem frá var horfið. Tæknin til að rækta kjöt notar 99% minna landrými en þarf til að rækta dýr og á meðan tæknin skilar okkur kannski ekki fullbúnum steikum þá gæti hún verið vel nothæf til að búa til dýrafóður á meðan tæknin er fullkomnuð fyrir mannlegar væntingar.

Það verður gríðarleg áskorun hjá okkur á næstu áratugum að rækta matvæli án þess að ganga á auðlindir jarðarinnar og tækifæri næstu kynslóða. Ylrækt er þar mikilvægur hluti af lausninni. Þar eru margar áskoranir sem við þurfum að glíma við, t.d. í kostnaði við ræktun ýmissa algengra tegunda. Ættum við t.d. að rækta kaffi á Íslandi? Það mun líklega aldrei borga sig miðað við núverandi aðstæður vegna þess að þar sem kaffi er ræktað þá hjálpar náttúran svo mikið að framleiðslan kostar nánast ekki neitt. Fórnarkostnaðurinn er hins vegar ósnortin náttúra og þær óafturkræfu breytingar sem við gerum til þess að geta fengið ódýrt kaffi. Er það kostnaður sem enginn á að borga? Enginn vill dýrt kaffi en samt borgar fólk 500 kr. fyrir bolla á kaffihúsum. Þar með er ekki verið að borga fyrir notkun á ósnortinni náttúru.