151. löggjafarþing — 22. fundur,  18. nóv. 2020.

nýsköpun í ylrækt og framleiðsla ferskra matvara til útflutnings.

[16:21]
Horfa

Ari Trausti Guðmundsson (Vg):

Herra forseti. Ég vil byrja á því að þakka þessa gagnlegu umræðu og minna á það að umræður á Alþingi eins og um þetta mál sýna að það er ótrúlegur samhljómur um þessi mál þótt menn hafi eitt og annað að gagnrýna. Mig langar að benda á svona í gegnum umræðuna þessa auðlindagarðshugmynd, þ.e. að gjörnýta jarðhitann og allt sem frá honum kemur á stærri virkjunarstöðvum. Það er mjög mikilvægt og eins að sveitarfélögin komi inn, eins og Orkídea, þetta fyrirbæri sem er til á Suðurlandi, samvinnufyrirbæri sveitarfélaga, Landsvirkjunar og fleiri aðila. Það er mikilvægt að þessi hluti framkvæmdarvaldsins sé að spila með.

Mig langar líka að nefna nauðsyn þess að orkuframboð sé nægt og auðveldar tengingar og að það taki ekki langan tíma að fá 1 eða 2 eða 3 MW í tiltölulega stór fyrirtæki sem eru í burðarliðnum.

Svo eru það skipasamgöngur. Það er jú þannig að það eru komin tvö ekjuskip sem nota Þorlákshöfn sem á að endurbæta mjög, fyrirhugaðar eru endurbætur á Njarðvíkurhöfn og á öðrum miðlægum höfnum hér á landi sem allar auðvelda skipaflutninga frá landinu. Það er verið að taka á því.

Mig langar einnig að minnast á aukinn stuðning við nýsköpun og ylrækt og annað slíkt í landinu. Það virðist sem sumir þingmenn hafi ekki hlustað á okkur hæstv. ráðherra hér en við vorum að telja upp ótal atriði sem sýna fram á að það er verið að styrkja umhverfið og bæta það. En hvað sem öllu þessu líður eru næg verkefni fram undan, hvort sem er handa þessari ríkisstjórn eða þeirri næstu, að raungera það sem við erum að tala um hér í salnum.