151. löggjafarþing — 22. fundur,  18. nóv. 2020.

nýsköpun í ylrækt og framleiðsla ferskra matvara til útflutnings.

[16:23]
Horfa

ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Herra forseti. Ég þakka fyrir þessa umræðu þar sem margt áhugavert kom fram. Eins og ég nefndi í fyrri ræðu þá lít ég svo á að við höfum þegar tekið ákvörðun um að sækja fram á þessu sviði. Þar erum við, þangað ætlum við og við erum að taka ákvarðanir og fara í aðgerðir til að ná því. Líti menn á stefnumörkun okkar má sjá það. Líti menn á aukinn stuðning má sjá það. Skoði menn nýsköpunarstefnu og orkustefnu má sjá það. Matvælastefna er á lokametrunum. Stefnumörkun Íslandsstofu talar sömuleiðis inn í þetta og tækifærin út á við, þessi hringrás auðlinda og auðlindagarðarnir, eru algjört lykilatriði. Það í bland við hugvitið og fjármagnið og markaðssetningu gerir okkur kleift að sækja fram. Við þurfum skýrar reglur og við þurfum einfaldari reglur. Við þurfum að vera viss um að við séum ekki hamlandi þáttur heldur tryggja að farvegurinn sé greiður og samkeppni sé til staðar. Við eigum að byggja á styrkleikum okkar sem eru t.d. orkan, hreint vatn, heitt vatn, hugvit, stuttar boðleiðir o.s.frv. Hlutverk okkar hér er að mínu mati að tryggja að við séum að byggja og efla umhverfið þannig að það sé öflugt umhverfi fyrir einstaklinga til að sækja fram.

Hér var komið töluvert inn á flutnings- og dreifikostnað raforku varðandi grænmetisbændur. Ég vildi bara nefna að við niðurgreiðum tæplega 90% af flutnings- og dreifikostnaði í þá veru, þannig að það sé sagt. Mér fannst í málflutningi einstakra þingmanna eins og þar væri ekki mikið gert en það er nú aldeilis ekki svo. Ég get alveg tekið undir með hv. þingmanni að það væri áhugavert að fara í OECD-vinnu að þessu leyti. Þar væri líka áhugavert að sjá samanburðinn við önnur lönd, við hvað við erum að keppa. Við vitum að allt er þetta mjög niðurgreitt og stýrt. Það sem við erum að ræða hér er kannski tækifæri til að gera hlutina með aðeins öðrum hætti og að mínu mati skiptir mestu máli að umhverfið sé skýrt, skilvirkt, leikreglur skýrar, af því það er með þeim metnaði og hugviti sem við náum raunverulegum árangri.