151. löggjafarþing — 22. fundur,  18. nóv. 2020.

Nýsköpunarmiðstöð Íslands.

70. mál
[16:34]
Horfa

Sara Elísa Þórðardóttir (P):

Virðulegi forseti. Hæstv. ráðherra kom aðeins inn á það sem ég ætlaði að spyrja um í lok ræðu sinnar og boðaði að fram kæmu upplýsingar sem myndu svara þessu betur á morgun, minnir mig að hún hafi sagt. En ég vil leggja áherslu á mikilvægi þessara hluta hvað varðar áframhaldið, að tryggðar verði áframhaldandi rannsóknir á myglu og byggingarefni eftir að Nýsköpunarmiðstöð verður lögð niður. Mig langar til að spyrja hæstv. ráðherra hvernig hún hyggst gera þetta, og hvernig verður tryggt að fagþekking og fjármagn fylgi þessum málaflokki. Finnst hæstv. ráðherra það nógu tryggt fyrirkomulag að einkaaðili sjái sér hag af því? Eins vil ég spyrja hæstv. ráðherra: Hvað kemur til með að verða um þá þekkingu sem er til staðar hjá Nýsköpunarmiðstöð Íslands í þessum málaflokki?