151. löggjafarþing — 22. fundur,  18. nóv. 2020.

Nýsköpunarmiðstöð Íslands.

70. mál
[16:36]
Horfa

Albertína Friðbjörg Elíasdóttir (Sf):

Herra forseti. Ég þakka málshefjanda, hv. þm. Guðjóni Brjánssyni, fyrir þessar mikilvægu spurningar. Þetta eru spurningar sem margir hafa beðið eftir svörum við. Ég varð reyndar fyrir svolitlum vonbrigðum með svar hæstv. ráðherra, hafði ekki á tilfinningunni að komin væri útfærðari mynd af stöðu mála í framhaldinu. Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra hvort það sé skýrt betur í frumvarpinu hvernig nýsköpun á landsbyggðinni verður háttað. Hjá hverjum munu þessir starfsmenn sem verða áfram starfa, verða þeir hjá ráðuneytinu eða verða þeir hjá einhverjum öðrum?

Ég hef líka, herra forseti, verulegar áhyggjur af því að þetta er mál sem ráðherra boðaði í þingmálaskrá að kæmi fram í október, nú er nóvember að ljúka og þetta mál kemur vonandi inn í þingið á morgun, eins og hæstv. ráðherra boðar. Gerir hæstv. ráðherra virkilega ráð fyrir að þetta stórt mál verði klárað fyrir jól? Ég verð að viðurkenna að miðað við þann fjölda umsagna sem kom fram í (Forseti hringir.) samráðsgátt þá megum við eiga von á því að (Forseti hringir.) mikið verði um gestakomur og mikil umræða verði um þetta mál, sem á það líka skilið að fá almennilega umræðu.