151. löggjafarþing — 22. fundur,  18. nóv. 2020.

Nýsköpunarmiðstöð Íslands.

70. mál
[16:37]
Horfa

Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf):

Herra forseti. Ég verð að lýsa yfir talsverðum efasemdum um þá ætlun ráðherra að leggja Nýsköpunarmiðstöð niður. Það sem ég hef svolítið áhyggjur af er það sem starfsmenn Nýsköpunarmiðstöðvar hafa sjálfir verið að benda á, að þessi ákvörðun muni einfaldlega draga úr stuðningi gagnvart nýsköpun og frumkvöðlum. Ég velti fyrir mér hvort ráðherra sé ekki tilbúinn að hlusta aðeins betur á þá starfsmenn sem starfað hafa í þessum geira og innan miðstöðvarinnar og athuga hvort ekki sé hægt að ná betur saman. Ég veit að starfsmenn hafa átt fundi með ráðherranum og það hlýtur að skila sér að einhverju leyti. Og ég vona að ráðherra hlusti á einhver rök.

Mig langar líka að brýna hæstv. ráðherra til mikilvægra verka vegna þess að við sjáum það í fjárlögum ríkisstjórnar ráðherrans að aukningin í nýsköpunarmál á þessum tímum er einungis 0,3% af landsframleiðslu. 0,3% af landsframleiðslu er aukningin sem rennur til nýsköpunarmála á tímum Covid. (Forseti hringir.) Önnur tala: Ef við tökum heildina, heildarfjárhæðina sem fer í nýsköpunarmál, er það (Forseti hringir.) undir 1% af landsframleiðslu. Í hvaða heimi telur ráðherrann að það dugi til að mæta dýpstu kreppu Íslands í 100 ár?

(Forseti (BLG): Forseti biður þingmenn að gæta að ræðutíma en í svona stuttum ræðum er hver sekúnda dýrmæt.)