151. löggjafarþing — 22. fundur,  18. nóv. 2020.

Nýsköpunarmiðstöð Íslands.

70. mál
[16:39]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Guðjón S. Brjánsson) (Sf):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin. Ég tek undir það sem fram kom hjá hv. þm. Albertínu Friðbjörgu Elíasdóttur, og árétta þetta einmitt gagnvart landsbyggðinni. Fulltrúar Nýsköpunarmiðstöðvar eru mikilvægir fyrir landsbyggðarfólk, fólk í dreifbýlinu, því að þeir hafa þekkingu og ráðgjöf sem fólk þarf annars að sækja um langan veg með ærnum kostnaði. Þetta eru dálítið kaldar kveðjur til fólks í hinum dreifðu byggðum sem vinnur líka í mikilvægri frumkvöðla- og sprotastarfsemi.

Síðan langar mig að vísa til orða hæstv. ráðherra þar sem hún segir að eitt af leiðarljósum nýsköpunarstefnu fyrir Ísland sé að nýta fjármuni til rannsókna og frumkvöðlastarfs umfram umsýslu og yfirbyggingu. Er það skoðun hæstv. ráðherra að þetta sé of fyrirferðarmikill þáttur í starfsemi Nýsköpunarmiðstöðvar? Og er ekki nauðsynlegt að gera ráð fyrir þessum þætti í öllu starfi af þessu tagi? Það er áhyggjuefni að svona vísinda- og þekkingarstofnun, sem byggir að miklu leyti á samfelldu starfi yfir lengri tíma, skuli fara yfir til markaðarins, eins og er rauði þráðurinn. Hvaða þættir eiga að fara yfir á markaðinn? Getur hæstv. ráðherra bent á eitthvað?

Það kostar rúmlega 700 millj. kr. að starfrækja Nýsköpunarmiðstöð samkvæmt fjárlögum, úr ríkissjóði. Ráðgert er að tæplega helmingur þess fjármagns verði notaður til að fylgja eftir þeim verkefnum og stofnununum sem framhald verður á. Hvert fer restin? Hvert fer það sem út af stendur?