151. löggjafarþing — 22. fundur,  18. nóv. 2020.

Nýsköpunarmiðstöð Íslands.

70. mál
[16:41]
Horfa

ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Herra forseti. Svo ég svari fyrst varðandi sjálfstæði og óhæði, bæði í rannsóknum og prófunum, þá verður settur á fót óháður samkeppnissjóður um byggingar- og mannvirkjarannsóknir. Áhyggjur af hagsmunaárekstrum þar að lútandi eiga ekki við rök að styðjast, enda eru óháðir samkeppnissjóðir alþekkt leið til að styðja við rannsóknir á öllum sviðum. Auk þess að leggja áherslu á rannsóknir í byggingariðnaði erum við að stuðla að því að prófanir á byggingarvörum verði gerðar af faggiltum aðilum í samræmi við alþjóðlegar gæðakröfur. Mér finnst það skipta mjög miklu máli að þetta komi skýrt fram.

Í þeim tilfellum sem verkfræðistofur tækju að sér prófanir á byggingarvörum, og yrðu mögulega svonefndir tilkynntir aðilar af hálfu stjórnvalda, er gerð krafa um faggildingu samkvæmt lögum um byggingarvörur. Eitt skilyrði þess að prófunarstofa geti öðlast faggildingu á tilteknu sviði er að prófunarstofan sé hlutlaus, óháð hagsmunaaðilum og sjálfstæð. Að öðrum kosti getur hún misst faggildingu sína. Faggilding er að mínu viti langbesta leiðin til að tryggja að þessar kröfur séu uppfylltar.

Hér er komið inn á það að ekki sé verið að setja nóg í nýsköpun af hálfu stjórnvalda. Ég er því hjartanlega ósammála. Eins og ég kom inn á í mínu fyrra svari þá eru framlög til nýsköpunar, rannsókna og þekkingargreina í fyrirliggjandi fjárlagafrumvarpi hækkuð um tæpa 10 milljarða kr. milli ára eða um meira en 60%. Samtals er því verið að bæta 40 milljörðum kr. í málaflokkinn á fimm ára tímabili fjármálaáætlunar, samanborið við óbreytt framlög á fjárlögum yfirstandandi árs.

Ég vil bæta því við, sem ég og hv. þingmaður erum örugglega hjartanlega ósammála um, að að mínu viti er mælikvarði á það hversu öflugt nýsköpunarumhverfi við erum með, hversu hratt við getum sótt fram og hversu miklu betri við getum orðið, ekki mældur í því hvað ríkið setur mikla peninga í þennan málaflokk, og ég hef alltaf verið ofboðslega skýr með það. Varðandi þá spurningu hvað verði um afganginn af þeim helmingi sem fer í áframhaldandi verkefni, en rúmar 300 milljónir eru ekki nýttar, þá ætla ég að skila því í ríkissjóð.