151. löggjafarþing — 22. fundur,  18. nóv. 2020.

kynhlutlaus málnotkun.

73. mál
[16:44]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Andrés Ingi Jónsson) (U):

Herra forseti. Þegar Kvennalistinn kom fyrst til Alþingis vakti það nokkra athygli þegar fulltrúar hans tóku upp á því að kalla sig þingkonur. Þetta var ekki óumdeilt. Sagan segir að ónefndur þingkarl hafi mildilega bent þeim á að konur væru líka menn. Við því á hv. þingkona Guðrún Agnarsdóttir að hafa brugðist með því að benda út um gluggann hér sunnan til á húsinu og sagt, með leyfi forseta: „Sjáið t.d. mennina tvo sem standa þarna á Tjarnarbakkanum. Annar er ófrískur og best gæti ég trúað að hinn væri á túr.“

Hefðbundin málnotkun hér á þingi, svokallað ómarkað karlkyn, getur nefnilega verið svo fjarri því að gefa öllu fólki þá tilfinningu að það sé hluti af samtalinu og í málnotkun getur verið innbyggt kynjamisrétti. Með lögum skal land byggja snýst ekki bara um þau fyrirmæli sem birtast í lögunum, heldur líka það samfélag sem lögin móta, m.a. með málfarinu sem í þeim er notað.

Þessi umræða er hvorki ný af nálinni né einskorðast hún við Ísland. Áhugaverð tilraun í þessa átt birtist hjá stjórnlagaráði sem hóf jafnræðisákvæði sitt á orðunum: „Öll erum við jöfn fyrir lögum.“ Þarna eru það ekki „þeir allir“ sem eru jafnir fyrir lögum, heldur „við öll“ vegna þess að við öll sköpum saman samfélagið og við erum alls konar.

Alþjóðastofnanir á borð við Sameinuðu þjóðirnar og Evrópusambandið hafa fyrir löngu sett skýran ramma utan um málnotkun hjá sér, m.a. til að hún mismuni ekki kynjunum. Það fylgir því sennilega að vera samsuða fólks með ólíkan bakgrunn að þurfa að hafa þessi mál á hreinu. Þjóðþingin í kringum okkur virðast hins vegar ekki hafa sett sér slíkar reglur. Innan flestra ríkja gildir hins vegar opinber málstefna, sem nær þá m.a. til starfa þingsins og stjórnsýslunnar. Þannig hefur norska málnefndin sett fram leiðbeiningar um málfar sem stuðlar að jafnvægi á milli kynjanna og í Svíþjóð ber samkvæmt málstefnu að vinna gegn málnotkun sem viðheldur kynjahlutverkum og gerir konur ósýnilegar. Á svipuðum tíma og Kvennalistakonur settust hér á þing var norsku þingsköpunum breytt þannig að í stað þess að tala um „formann“ og „nestformann“ voru tekin upp orðin „leder“ og „nestleder“, þ.e. horfið frá kynbundnum orðmyndum. Núna í vor, á alþjóðlegum baráttudegi kvenna, ákvað svo norska ríkisstjórnin að embætti og starfsheiti hins opinbera yrðu kynhlutlaus. Allir mennirnir og herrarnir þurfa núna að fara að heita eitthvað allt annað.

Örstutt, samandregið: Það getur verið þrautin þyngri að breyta hefðum, en þetta eru kannski bara lítil atriði sem þarf að athuga. Í fyrsta lagi að beita frekar hvorugkyni í stað ómarkaðs karlkyns, í öðru lagi að endurhugsa notkun á fornöfnum, að segja öll frekar en allir, þau frekar en þeir (Forseti hringir.) og í þriðja lagi að uppfæra orðaforðann, eins og þegar starfsheiti vísar til kyns.

Sú fyrirspurn sem hér liggur fyrir er (Forseti hringir.) hvort ráðherra telji tilefni til þess að setja þessa vinnu af stað af alvöru í Stjórnarráði og á löggjafarsamkomunni.