151. löggjafarþing — 22. fundur,  18. nóv. 2020.

kynhlutlaus málnotkun.

73. mál
[16:47]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina sem varðar kannski fyrst og fremst hina formlegu málnotkun sem gæti heyrt undir málstefnu Stjórnarráðsins. Raunar er núgildandi málstefna Stjórnarráðsins frá árinu 2012 og er því tvímælalaust kominn tími á endurskoðun hennar. Það er í raun og veru rétti vettvangurinn til að taka þessa mikilvægu umræðu um kynjanotkun tungumálsins. Síðan erum við með það sem heitir íslensk málstefna, sem heyrir undir Íslenska málnefnd, sem heyrir undir hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra þar sem rætt er um hina almennu málnotkun. Þó þarf þetta tvennt alltaf að einhverju leyti að fara saman.

Það er áhugavert að ræða þetta í ljósi þess að umræðan er þörf og ég minni á frumvarp mitt um kynrænt sjálfræði, sem varð að lögum hér, þar sem heimiluð er kynhlutlaus skráning, og sömuleiðis þau lagafrumvörp sem ég hef mælt fyrir á þessu þingi, en þar er einmitt leitast við að hafa lagatextann eins kynhlutlausan sem mögulegt er, þ.e. annars vegar frumvarp til laga um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna og hins vegar frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lögum vegna laga um kynrænt sjálfræði. Ég ætla ekki að fara að telja upp allar þær breytingar sem þar birtast en þar er verið að gera atlögu að því að innleiða að einhverju leyti kynhlutlausara málsnið, eins og ég fór raunar yfir í framsöguræðu minni. Ég gæti hins vegar nefnt tiltekin dæmi þar sem m.a. er talað um fólk fremur en menn, af því að hv. þingmaður nefndi sérstaklega það orð, en þar er verið að nota hvorugkyn en ekki karlkynsorð. Það er hins vegar erfitt að bera íslenska tungu alveg saman við önnur tungumál án þess að hafa það í huga að málfræðileg kyn í íslensku eru þrjú en þau eru til að mynda tvö í dönsku, og í norsku sem ég held að hv. þingmaður hafi vitnað til. Þar eru tvö málfræðileg kyn. Þau eru þrjú í íslenskri tungu þannig að það hefur áhrif á það hvernig við ræðum þessi mál, að við erum með málfræðilegt karlkyn og málfræðilegt kvenkyn fyrir utan hið málfræðilega hvorugkyn. Og þá stöndum við frammi fyrir því sem hæstv. forseti nefndi hér áðan þegar hann sagði „hæstvirt forsætisráðherra“, til að mynda, þegar rætt er um ráðherra, og síðan eru kvenkyns ráðherrar jafnvel ávarpaðir með fornafninu hann, sem er málfræðilega rétt en líffræðilega ekki mjög nákvæmt, það blasir við af orðanna hljóðan.

Ég nefndi það í upphafi míns máls að þetta er umræða sem ég held að ætti heima á vettvangi málnefndar Stjórnarráðsins, sem er auðvitað málnefnd Stjórnarráðsins, en þyrfti þar af leiðandi líka að eiga samtal við Alþingi, ef við veltum því fyrir okkur í hvaða farveg þetta mál ætti að fara. Eðli máls samkvæmt hefur til að mynda heimild til hlutlausrar skráningar kyns í lögum um kynrænt sjálfræði í för með sér að í laga- og reglugerðarákvæðum, sem fela í sér kyngreiningu, þ.e. karl eða konu, verður líka að gera ráð fyrir þeim sem kjósa að hafa að hlutlausa skráningu kyns. Ég hef þegar hvatt einstakra ráðherra til að endurskoða tilteknar reglugerðir og reglur sem komnar eru til ára sinna með tilliti til þess að tryggja megi að fólk búi við jafna aðstöðu óháð kyni.

Það sem þyrfti að ræða í þessari umræðu er annars vegar að gera íslenskt lagamál og annan opinberan texta kynhlutlausan. Þá er hægt að nota aðferðir, eins og ég nefndi hér áðan, að setja orðið fólk í staðinn fyrir menn o.s.frv., eða að bæta við sérákvæðum um einstaklinga sem breytt hafa kynskráningu sinni. Síðan er það umræðan um að ganga skrefinu lengra og gera þá breytingar á íslenskri tungu og taka upp nýtt persónufornafn fyrir þá einstaklinga sem kjósa að hafa hlutlausa kynskráningu. Þá erum við kannski fremur komin inn á verksvið málnefndar og hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra. En þetta er þróun sem er í gangi. Ég nefni hér til að mynda mannanafnafrumvarp sem er hér í þinginu frá hæstv. dómsmálaráðherra þar sem lagt er til að eftirnafn fólks geti endað á bur, auk hins hefðbundna son og dóttir. Þetta er tillaga sem kom upphaflega fram í nýyrðasamkeppni frá Samtökunum 78 árið 2015. (Forseti hringir.) Við miðlun á hlutlausu kyni hjá þjóðskrá, í samvinnu við Samtökin 78, var náð niðurstöðu um að heiti á nýju kyni í þjóðskrá verði kynsegin/annað. (Forseti hringir.) Þetta er talið ná eins góðri sátt og hægt er (Forseti hringir.) innan hinsegin samfélagsins svo að sem flestir einstaklingar geti samsamað sig því.