151. löggjafarþing — 22. fundur,  18. nóv. 2020.

tafir á aðgerðum og biðlistar.

117. mál
[17:13]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir umræðuna og tek undir það með hv. þingmanni að þetta er örugglega ekki í síðasta skipti sem við ræðum þetta. Ég held að þetta sé fullt tilefni til sérstakrar umræðu frekar en að gera þetta svona á hlaupum seinni part dags. Ég treysti því að hv. þingmaður eða einhver annar taki þann bolta því að við þurfum að ræða þessi mál. Varðandi þá grundvallarstaðreynd að aðgerðir úti í bæ hafi áhrif á álagið á Landspítalann þá er það bara veruleikinn og það er ástæðan fyrir því að við erum að fara í tímabundið bann á valkvæðum aðgerðum, eins og við gerum núna í Covid. Þarna er ákveðin þekking sem liggur til grundvallar vegna þess að ef frávik koma upp eða vandamál við slíkar aðgerðir úti í bæ er það Landspítalinn sem grípur inn í eins og alltaf.

Ég er sammála hv. þm. Ólafi Þór Jónssyni um að krísuástand er ekki góður tími til að taka stefnumarkandi ákvarðanir. Ég er líka mjög áfram um að við þurfum alltaf að hafa heildarsýnina undir þegar ákvarðanir eru teknar. Þess vegna er ég ekki sammála því hvernig hv. þm. Bryndís Haraldsdóttir setur málið fram, að þetta sé bara spurning um hvað einstaklingurinn fær, eins og hún segir í anda síns flokks. Þetta snýst um það að það sé samhengi í kerfinu öllu. Þetta er allt saman keðja og hver ákvörðun hefur áhrif á kerfið í heild.

Af því að spurt var sérstaklega um fjölda aðgerða á Akranesi eru nú gerðar 200 aðgerðir á ári á Akranesi, en þegar liðskiptasetrið er komið, sem gert er ráð fyrir að verði komið í fullan gang í febrúar 2022, mun sú tala hækka um 100. Þá verðum við farin að tala um 300 aðgerðir á Akranesi. (Forseti hringir.) Það mun breyta stöðunni umtalsvert. En ég ítreka, virðulegur forseti, að við þurfum betri tíma til að ræða þetta.