151. löggjafarþing — 22. fundur,  18. nóv. 2020.

vernd barna gegn ofbeldi í skólastarfi.

257. mál
[17:29]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Lilja Alfreðsdóttir) (F):

Virðulegur forseti. Rætt hefur verið um fræðslu í þessari umræðu, og það er alveg klárt, og við erum algjörlega sammála um það, að það þarf að auka hana og það þarf að uppfæra hana vegna þess að hlutirnir hafa breyst á síðustu fimm til sex árum. Hv. þm. Hanna Katrín Friðriksson nefndi hinsegin börn og ungmenni í máli sínu, að þeim líði ekki nógu vel, og tölurnar eru sláandi.

Ég talaði fyrir menntastefnunni í gær. Þar leggjum við áherslu á fjölbreytileika. Við leggjum áherslu á vellíðan, að hver og einn geti verið í skólakerfinu á sínum eigin forsendum. Það er sérstakt ákvæði um fjölbreytileika og fjölmenningu og snemmbæran stuðning, sem skiptir öllu máli. Þeim menntakerfum sem fjárfesta mjög snemma í forvörnum, varðandi vellíðan, eineltismál og fræðslu, að allir átti sig á því hver staðan er og hvernig við eigum að koma fram hvert við annað, vegnar bara betur.

Ég hef tekið það saman í mennta- og menningarmálaráðuneytinu hvert fjármunirnir fara. Ef við berum okkur saman við finnska kerfið fara þar miklu meiri fjármunir á fyrstu skólastigin, sex, sjö, átta ára, en fara svo minnkandi. En hjá okkur eykst fjárúthlutunin með hækkandi aldri og verður þá kostnaðarsamari og það verður erfiðara að grípa inn í þessi viðkvæmu mál. Ég hef því lengi lagt gríðarlega áherslu á þessi fyrstu skólastig, leik- og grunnskóla, vegna þess að ég er algerlega sannfærð um að ef við náum vel utan um kennaramenntun og allt sem henni tengist, hvað varðar öll þessi mál, á því stigi þá líði öllum betur og þá getum við komið í veg fyrir þessi mál miklu fyrr.