151. löggjafarþing — 22. fundur,  18. nóv. 2020.

breytingar á lögum um fjöleignarhús.

62. mál
[17:31]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Síðustu mánuðirnir hafa sannarlega minnt okkur á mikilvægi brunavarna. Frá því í maí hafa sex einstaklingar hér á landi látist af völdum eldsvoða, en svo mörg mannslát af þeim völdum höfum við ekki séð á einu ári í a.m.k. 40 ár. Þessi sorglegu atvik hafa eðlilega vakið upp umfangsmikla umræðu um brunavarnir í íbúðarhúsnæði en einnig um húsakost og aðbúnað erlends verkafólks sem starfar hér á landi, auk þeirrar ábyrgðar leigusala að tryggja gæði og öryggi húsnæðis. Þessa umræðu tel ég vera af hinu góða og vona að hún leiði til áþreifanlegra umbóta á þessum sviðum. Það er jú lífsnauðsynlegt að fólk sem býr í þessu ríka landi eigi kost á að búa í öruggu og viðunandi húsnæði sem fullnægir öllum kröfum samfélagsins, hvort sem það dvelur hér til skemmri eða lengri tíma. Það eru sjálfsögð mannréttindi að eiga öruggt skjól.

Því vakti það mig til umhugsunar þegar ég las frétt síðsumars um að kona sem býr í ósamþykktri þakíbúð í miðbæ Reykjavíkur hafi lent í erfiðleikum við að ráðast í úrbætur á brunavörnum á íbúð sinni vegna neitunar eins nágranna síns. Hún hafði einmitt ákveðið að taka brunavarnir í íbúð sinni fastari tökum í kjölfar brunans á Bræðraborgarstíg. Það er vissulega eðlileg meginregla að sumar breytingar í fjöleignarhúsum séu háðar samþykki meiri hluta eða jafnvel allra eigenda. Eitt af grunnstefjunum í lögum um fjöleignarhús er einmitt að íbúðareiganda beri að taka eðlilegt og sanngjarnt tillit til annarra eigenda. Hins vegar er bagalegt að nágranninn geti alfarið komið í veg fyrir að eðlilegar úrbætur í þágu brunavarna eigi sér stað, úrbætur sem geta jafnvel afstýrt stórslysum eða því að fólk lokist inni. Tillitssemin þarf að ganga í báðar áttir. Aðrir íbúðareigendur þurfa þannig að taka tillit til þeirra miklu hagsmuna sem hver og einn íbúðareigandi hefur af öruggum brunavörnum.

Ég velti því upp hvort ekki þurfi að gera bragarbót á þessu til að gera fólki auðveldara að tryggja að það búi við fullnægjandi brunavarnir, að það sé ekki undir einum nágranna eða eiganda komið hvort farið sé í slíkar framkvæmdir. Rétt gæti verið að ráðast í lagabreytingar í tengslum við það hvernig ákvarðanir eru teknar í húsfélögum um þessi mál. Jafnvel þyrfti að skoða stjórnsýsluna í sambandi við slíkar breytingar á húsnæði. Því vil ég spyrja hæstv. ráðherra hvort hann hyggist leggja til breytingar á lögum um fjöleignarhús með það að markmiði að auðvelda eigendum einstakra íbúða að ráðast í framkvæmdir í þágu brunavarna sem yfirvöld hafa þegar samþykkt. Ef svo er, megum við vænta frumvarps þar að lútandi? Hvaða breytingar sér ráðherrann fyrir sér?