151. löggjafarþing — 22. fundur,  18. nóv. 2020.

breytingar á lögum um fjöleignarhús.

62. mál
[17:40]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir. Það er ágætis umfjöllun í dag um Bræðraborgarstígsmálið. Þar kemur fram að eldvörnum hafi verið verulega ábótavant, eins og við höfum heyrt. Það voru engar svalir, það var ein flóttaleið af rishæðinni, stigi sem stóð í ljósum logum, slökkvitæki höfðu ekki verið tekin út lengi o.s.frv. Það er auðvitað margt undir í því eina dæmi. En það sem mér finnst vera útgangspunkturinn er þegar einhver getur hreinlega stöðvað það að maður búi sér til líflínu, að maður búi sér til neyðarútgang. Við heimilum að fólk sé með skráð lögheimili jafnvel þó að íbúð sé ósamþykkt. Þar held ég að löggjafinn sé ekki alveg að tala við sjálfan sig, að heimila það, en um leið segja svo einhver önnur lög að eiginlega sé hægt að meina fólki að hafa slíkan neyðarútgang.

Það er gott að heyra að vinna hafi farið í gang og einhverra hugmynda eða tillagna sé að vænta. Við megum ekki draga þetta of lengi. Eldvarnaátak hefst gjarnan á þessum árstíma þegar jólin eru fram undan og aldrei eins mikil hætta á að eitthvað af þessum toga gerist. Það er því miður árstíminn. Mér finnst það bara ömurlega staðreynd að við skulum hafa misst svona margt fólk á þessu ári í eldsvoða, fleiri en í yfir 40 ár. Það hlýtur að ýta við okkur og ég vona að ráðherra verði með eitthvað fyrir okkur til að moða úr eftir áramótin, það þykir mér vera ábyrg vinna og afstaða í ljósi aðstæðna.