151. löggjafarþing — 22. fundur,  18. nóv. 2020.

breytingar á lögum um fjöleignarhús.

62. mál
[17:42]
Horfa

félags- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F):

Virðulegi forseti. Ég tek undir með hv. þingmanni. Bruninn á Bræðraborgarstíg var þess eðlis að hann snerti á svo mörgum flötum sem tengjast þessu með einum eða öðrum hætti og við vildum leyfa því að ganga í gegn, fá tillögur þaðan og vinna samhliða þeirri rannsókn tillögur að því hvað betur mætti fara og hvaða lagabreytingar við sæjum fyrir okkur. Það dæmi sem hv. þingmaður rekur hér er auðvitað, eins og fréttin birtist, að einhverju leyti sláandi. Við höfum gjarnan talað um að við séum öll sóttvarnir. Við erum líka öll brunavarnir og löggjöfin á ekki að koma í veg fyrir að við getum sinnt því hlutverki okkar að vera öll brunavarnir. Það held ég að þurfi að vera leiðarljósið. Ég held að það þurfi ekki alltaf svakalegar fjárinnspýtingar til að gera breytingar heldur eru einfaldar lagabreytingar einfaldlega vel til þess fallnar. Þessi fyrirspurn hreyfir við málum og hún fer inn í þessa vinnu. Ég mun koma þeim umræðum, sem hér hafa farið fram, beint inn í þá vinnu sem er í gangi. Það munu koma aðgerðir og vonandi skilar þetta sér inn í vinnu að þeim aðgerðum sem boðaðar eru.

Að öðru leyti þakka ég hv. þingmanni fyrir að taka málið hér upp. Ég var að rifja það upp og held að þetta sé í fyrsta sinn sem ég tek þátt í umræðum um brunavarnir á Alþingi, jafn skrýtið og það nú er. Miðað við hvað við tökum mörg mál til umfjöllunar í þessum sal minnist ég þess ekki (Forseti hringir.) að hafa fyrr tekið þátt í umræðu um brunavarnir. (Forseti hringir.) Það er líka vel og ég óska hv. þingmanni til hamingju með það.