151. löggjafarþing — 22. fundur,  18. nóv. 2020.

loftslagsstefna opinberra aðila.

61. mál
[17:44]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Andrés Ingi Jónsson) (U):

Herra forseti. Þó að það komi ekki til af góðu þá hafa undanfarnir mánuðir sýnt okkur að aðlögunarhæfni íslensks samfélags eru lítil takmörk sett. Hver einasti vinnustaður landsins hefur umturnað öllu sínu starfi á síðustu mánuðum og atriðum eins og fjarvinnu starfsfólks, sem mörgum þótti vera fjarlægur draumur, hefur einfaldlega verið hrint í framkvæmd til að tryggja samfellu í rekstri stofnana og fyrirtækja um allt land.

Þetta tengist þeirri fyrirspurn sem hér liggur fyrir og er í raun tvíþætt: Annars vegar spyr ég hæstv. umhverfis- og auðlindaráðherra út í loftslagsstefnu ríkisins og sveitarfélaga í samræmi við 5. gr. c laga um loftslagsmál, hversu margar stofnanir ríkisins, fyrirtæki í meirihlutaeigu ríkisins, og sveitarfélög hafi sett sér slíka stefnu og hvernig eigi að reka á eftir þeim sem ekki hafa gert það. Seinni hluti fyrirspurnarinnar snýr síðan að því sem við höfum kannski opnað augun meira fyrir í kjölfarið á Covid, þeim möguleika að auka hlut fjarvinnu og gera hana að hluta af starfi, t.d. í stjórnum, ráðum og nefndum á vegum hins opinbera, og að stór hluti þeirrar vinnu fari fram á fjarfundum. Það myndi draga úr ónauðsynlegum ferðalögum, t.d. nefndafólks, á milli landshluta. Þetta myndi gera fólki um allt land hægara um vik að taka þátt í starfi á vegum hins opinbera. Ef við horfum bara á höfuðborgarsvæðið, þar sem stærsti hluti landsmanna býr og starfar, þá væri hægt, með því að flétta inn í loftslagsstefnu opinberra aðila einhvern áskilnað um að hluti starfsmanna myndi vinna hluta mánaðar í fjarvinnu heiman frá sér, að ná fram jákvæðum loftslagsáhrifum auk þess sem breytingarnar ætti að gera þannig úr garði að þær væru jafnframt bara til þæginda og hægðarauka fyrir starfsfólkið.

Mig langar að spyrja ráðherrann út í þetta, hvort verið sé að beina því til opinberra stofnana að flétta reynslu síðustu mánaða inn í þá stefnu sem á að vera að vinna hvort eð er. Það kemur reyndar ekki fram í skriflegum hluta fyrirspurnarinnar en mig langar að spyrja líka út í (Forseti hringir.) utanlandsferðir af því það er eitthvað sem hlýtur að þurfa að endurskoða á næstunni(Forseti hringir.) þegar kemur í ljós að stór hluti af alþjóðastarfinu sem hefur kallað á ferðir milli landa (Forseti hringir.) getur gengið nokkurn veginn sinn vanagang þó að fólk geti ekki alltaf hist í sama rými.

(Forseti (GBr): Forseti minnir hv. þingmann á knöpp tímamörk, það eru þrjár mínútur.)