151. löggjafarþing — 22. fundur,  18. nóv. 2020.

loftslagsstefna opinberra aðila.

61. mál
[17:54]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Andrés Ingi Jónsson) (U):

Virðulegur forseti. Ég þakka ráðherra svörin. Mig langar aðeins að stelast til að ræða hér mál sem tengist loftslagsmálum ekki beint en er samt ákveðin birtingarmynd. Í dag upplifum við einn af þessum ofboðslega fallegu vetrarstilludögum. Það er kalt, það er bjart, það er logn. Það er ofboðslega fallegt veður og gott að vera úti. Frostið bítur í kinnarnar og við verðum öll dálítið glaðari. En þá er grár dagur í Reykjavík vegna svifryks af völdum bílaumferðar. Börnin á leikskólanum Álftaborg í Safamýri þurftu t.d. að vera meira og minna inni í dag frekar en að leika úti í þessu frábæra veðri. Einu ráðin sem borgin hefur er að hvetja fólk til að stilla notkun einkabílsins í hóf til að draga úr svifryksmengun. En þrátt fyrir það, og þrátt fyrir að við séum í miðjum heimsfaraldri, sem kyrrsetur stóran hluta íbúanna, fer svifryk yfir heilsuverndarmörk.

Mig langar að spyrja ráðherra hvort ekki kæmi til athugunar að útbúa einhvers konar kerfi, ekki ósvipað því að flétta fjarvinnuelementið inn í loftslagsstefnu opinberra aðila, þar sem ríkið tengir gráu dagana hér á höfuðborgarsvæðinu beint við stofnanir, þannig að þegar stefni í óefni þá vinni einfaldlega ákveðinn hluti opinberra starfsmanna í fjarvinnu. Þá kyrrsetjum við í raun einhvern hluta bílaflotans hér á höfuðborgarsvæðinu til þess að við þurfum ekki að kyrrsetja börnin sem eiga rétt á því að leika úti í heilnæmu lofti.