151. löggjafarþing — 22. fundur,  18. nóv. 2020.

frumvarp um skilgreiningu auðlinda.

193. mál
[17:58]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Sigurður Páll Jónsson) (M):

Hæstv. forseti. 20. júní 2019 var samþykkt hér tillaga til þingsályktunar um skilgreiningu auðlinda sem sá sem hér stendur var 1. flutningsmaður að. Þingsályktunartillagan hljóðar svona:

„Alþingi ályktar að fela umhverfis- og auðlindaráðherra að fá sérfræðinga á sviði auðlindaréttar, umhverfisfræða og umhverfisréttar til að semja frumvarp til laga sem skilgreini hvað flokkast til auðlinda hér á landi og hverjar auðlindir Íslands eru.

Frumvarpið verði lagt fram á 150. löggjafarþingi.“

Það er akkúrat það þing sem hér stendur yfir. Spurningar mínar til ráðherrans eru svohljóðandi: Hver er staðan við vinnu að gerð frumvarpsins til laga sem skilgreinir hvað flokkast undir auðlindir, eins og ég var að lesa upp? Hvenær hyggst ráðherra leggja frumvarpið fyrir Alþingi?

Svo kom mér önnur spurning til hugar bara þegar ég var að ganga hér til ræðustóls: Er ráðherrann sammála því sem tillagan segir til um, svona í hjarta sínu?

Hugtakið auðlind er víðfeðmt og nær til margra þátta samfélagsins. Talið er að allir þættir náttúrunnar, jörðin, lífríkið, vatn, sólarljós og loft geti talist til náttúruauðlinda. Auðlindir geta verið skilgreindar sem þjóðareign, svo sem fiskstofnar. Afskipti ríkisins ná samt til margra annarra auðlinda en þeirra sem beinlínis eru taldar þjóðareign. Samfélagið sjálft hefur tekið á sig að stuðla að verndun mikilvægra þátta umhverfisins, svo sem hreinleika andrúmsloftsins, og sett reglur um nýtingu dýrastofna og annarra þátta lífríkisins. Segja má að náttúruauðlindir geti verið beinn þáttur í neyslu, t.d. útivistarsvæði og veiðisvæði fyrir villt dýr. Þær auðlindir sem ekki teljast vera náttúruauðlindir eðli málsins samkvæmt eru t.d. mannauður, þekkingarkerfi, gagnagrunnar og önnur hliðstæð verkefni sem menn hafa skapað.

Í greinargerð með þessari þingsályktunartillögu er farið ítarlega í saumana á þessu og þar er líka komið inn á hugsanlega gjaldtöku náttúruauðlinda hér á landi. Það á nú reyndar við um fiskveiðiauðlindina en fæstar aðrar auðlindir eru með gjaldtöku. Mun ég koma betur inn á það í seinni ræðu minni í þessari umræðu.