151. löggjafarþing — 22. fundur,  18. nóv. 2020.

frumvarp um skilgreiningu auðlinda.

193. mál
[18:09]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson):

Hæstv. forseti. Það sem við erum að ræða hér og er tilefni fyrirspurnarinnar er náttúrlega mjög áhugavert og mikilvægt viðfangsefni. Það má kannski benda á að auðvitað er hægur vandi að vinna skilgreiningar á náttúruauðlindum landsins þó svo að ekki sé sett um það sérstök löggjöf. Það er kannski sú vinna sem við höfum hafið, að byrja á að skilgreina hverjar þær eru, t.d. það sem ég nefndi áðan um náttúruauðlindabókhald, sem gæti verið mjög áhugavert. Ég heyri að við hv. þingmaður erum sammála um að skynsamlegt gæti verið að skoða það betur. Hagstofa Íslands safnar nú þegar ákveðnu talnaefni og birtir um atvinnuvegi sem byggja á náttúruauðlindum, svo sem um ýmis umhverfismál, þannig að þar eru líka upplýsingar sem þarf að skoða.

En ég þakka hv. þingmanni fyrir þessa umræðu og ég myndi gjarnan vilja nota tækifærið til að ræða þetta við hv. umhverfis- og samgöngunefnd. Jafnvel væri gaman að heyra í hv. þingmanni síðar um hvernig honum lítist á að setja fram grænbók með tillögum um þetta mál eða jafnvel skýrslu til þingsins. Ég óska eftir því að við tökum samtal um það á einhverjum tímapunkti.