151. löggjafarþing — 23. fundur,  19. nóv. 2020.

desemberuppbót lífeyrisþega.

[11:02]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegi forseti. Þessi svör eru alveg stórfurðuleg. Það er talað um að jólabónusinn sé skertur til þess að þeir sem minnst fá fái hann en þeir sem mest fá fái hann ekki. Þetta stenst ekki. Hvað skerðir jólabónusinn? Lífeyrissjóðurinn. Og hvað er gert við lífeyrissjóðinn? Hann er keðjuverkandi skertur. Hverjir lenda verst í þessu? Þeir sem eru með lægst laun, konur. Hvernig í ósköpunum er hægt að réttlæta það að búa til jólabónus upp á 45.000 kr. og skatta niður í 30.000 en hirða það síðan og segja að það sé eðlilegt? Er þá ekki miklu heiðarlegra að segja: Þið fáið hann ekki? Við ætlum ekki að láta ykkur hafa jólabónusinn. Það er fáránlegt að sprikla í skerðingarpyttinum og vera margskattaður vegna sömu tekna, lífeyrissjóðstekna. Ég trúi því ekki að hæstv. fjármálaráðherra sjái ekki að þetta gengur ekki upp. Þarna er verið að margskatta sama aurinn til að ná af þeim sem minnst hafa (Forseti hringir.) jólabónusnum. Getum við ekki einu sinni látið þá fá jólabónusinn óskertan?