151. löggjafarþing — 23. fundur,  19. nóv. 2020.

flokkun lands í dreifbýli í skipulagi.

[12:58]
Horfa

Ari Trausti Guðmundsson (Vg):

Herra forseti. Gagnsemi landsskipulagsstefnu er augljós og það þarf að leggja vandaða vinnu í framkvæmd hennar með ljósri verkaskiptingu milli ráðuneyta og ég þakka umræðuna þess vegna. Flokkun lands vegna landnotkunar, landbúnaðar og annarra nytja, er afar brýnt verkefni vegna ólíkrar hæfni lands og vaxandi þrýstings á landnotkun. Það er aukin matvælaframleiðsla, það er aukin fóðurframleiðsla, orkujurtir skipta æ meira máli, endurheimt votlendis eykst, skógrækt er að vaxa, bæði erlendar tegundir og innlendar, uppgræðsla lands, orkuframleiðsla o.s.frv., það er augljóst mál.

Mig langar aðeins að ræða hér um skógræktina sem er ekki unnin með viðunandi hraða, að mínu mati, þrátt fyrir aukna fjármuni og mikinn áhuga og brýna þörf. Mig langar þá að minna á nýjung á vegum Skógræktarinnar. Þar á ég við svokallað skógarkolefnisverkefni. Það er vottuð skógrækt til kolefnisbindingar. Þar er um að ræða samvinnu Skógræktarinnar við skógræktarbændur. Það er til svokölluð skógræktarbrú og þetta verkefni, Skógarkolefni, hefur sérvefsíðu. Það felst í að fyrirtæki, jafnvel erlend, stofnanir, einstaklingar, leggja fé í skógrækt til að binda kolefni vegna eigin starfsemi. Þetta er mælt og vottað og þarna er verið að binda kolefni til framtíðar.

Það er mjög brýnt að landsskipulagsstefna taki tillit til þessa, að það verði til reitir sem heiti einfaldlega loftslagsskógar. Ég hvet til þess af miklu afli og tel að við þurfum að slá í klárinn að þessu leyti.